Rannsóknin birtist í vísindaritinu Science Advances á föstudag og segir Rósa S. Gísladóttir, fyrsti höfundur greinarinnar og vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu, niðurstöðurnar áhugaverðar. „Það er í raun mjög lítið vitað um erfðaþætti sem hafa áhrif á rödd og tal. Þarna erum við að fara svolítið nýstárlega aðferð að hreinlega taka upp, tal Íslendinga og gera mælingar á þessum upptökum. Og finnum þarna fyrsta breytileikann sem hefur áhrif á tónhæð í röddinni. Það er í rauninni fyrsti breytileikinn sem við vitum til að hefur áhrif á tónhæð,“ segir Rósa.
Hefur áhrif á konur og karla
Athyglisvert sé að erfðabreytan, ABCC9, sem fannst í rannsókninni hafi áhrif á rödd karla og kvenna óháð líkamsstærð. „Sumum finnst það kannski koma svolítið að óvart af því við tengjum þetta við hormóna, við tengjum röddina við þegar strákar fara í mútur og svo framvegis og það er það sem er svolítið spennandi við þessa niðurstöðu er að við erum að læra eitthvað nýtt við þennan eiginleika. Að það eru engin augljós tengsl við hormóna út frá því hvað við vitum um þetta gen og svo framvegis,“ segir Rósa jafnframt.
Samband tónhæðar og heilsu
Það sé þó mögulegt þar sem sama erfðabreyta hafi líka áhrif á tjáningu á geni í nýrnahettum þar sem framleidd eru ýmis hormón sem geta haft áhrif á þessa tóna. Það sé eitthvað sem þurfi að rannsaka nánar. Þá hafi sama erfðabreyta áhrif á hjarta og æðakerfi sem undirstrikar samband tónhæðar og líkamlegrar heilsu. „Ég held það sé mikilvægt að fólk viti að þetta sé kannski ekki augljós áhættuþáttur ef fólk er með hærri tónhæð þá ætti það ekki að hafa áhyggjur af því að það sé með háan púlsþrýsting eða eitthvað slíkt en þetta er mjög áhugaverð mynstur fyrir okkur að spá og spekúlera í,“ segir hún.