Körfubolti

Sigurður Gunnar Þorsteinsson yfirgefur Tindastól

Siggeir Ævarsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson var í góðu sambandi við stuðningsmenn Stólanna í vetur
Sigurður Gunnar Þorsteinsson var í góðu sambandi við stuðningsmenn Stólanna í vetur Bára Dröfn

Sigurður Gunnar Þorsteinsson tilkynnti á Facebook síðu sinni nú í kvöld að hann hafi ákveðið að slíta samstarfi sínu við Tindastól. Framtíðin er óráðin samkvæmt Sigurði, en hann er þó ekki að hætta í körfubolta.

Sigurður nældi í sinn fjórða Íslandsmeistaratitil með Tindastóli nú í vor og miðað við kveðjuna sem hann sendir Skagfirðingum á Facebook kveður hann Sauðárkrók sáttur:

„Kæru Skagfirðingar ég vil tilkynna ykkur að ég hef ákveðið að slíta samstarfi mínu við Tindastól. Ég vil þakka ykkur fyrir seinustu 2 vetur, þið og Tindastóll tókst að gera þá einstaka.“

Sigurður, sem verður 35 ára nú í sumar, hefur komið víða við á löngum ferli, bæði hér á Íslandi og sem atvinnumaður erlendis. Hann byrjaði ferilinn með KFÍ á Ísafirði en hélt svo suður með sjó og landaði þar þremur Íslandsmeistaratitlum, fyrst með Keflavík 2008 og svo Grindavík 2012 og 2013.

Sigurður sagði í samtali við Vísi að framtíðin væri óráðin. Nú væri hann einfaldlega samningslaus og að skoða sín mál en skórnir væru í það minnsta alls ekki á leið upp í hillu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×