Neytendur

Mara­bou og Daim mun hverfa úr hillum IKEA

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
IKEA í Svíþjóð ætla að hætta að selja vörur frá Mondelez sem sakaðir eru um að styðja við stríðsrekstur Pútíns.
IKEA í Svíþjóð ætla að hætta að selja vörur frá Mondelez sem sakaðir eru um að styðja við stríðsrekstur Pútíns. Vísir/Vilhelm

Sænski húsgagnaframleiðandinn IKEA hyggst taka vörur frá súkkulaðirisanum Mondelez úr sölu. Fyrirtækið er enn með umsvifamikla starfsemi í Rússlandi og greiðir skatta til rússneska ríkisins.

Margir fara í húsgagnaverslunina IKEA gagngert til þess að borða og kaupa sælgæti. Þar á meðal súkkulaðið Marabou og Daim sem má segja að orðið sé samofið IKEA eftir áratuga fylgd, enda upprunalega sænskar vörur.

Í dag er súkkulaðið hins vegar komið í eigu bandaríska matvörurisans Mondelez sem framleiðir einnig Oreo, Ritz, TUC, Milka, Toblerone, Cadbury og Cote d´Or fílakaramellur. Mondelez er alþjóðlegt fyrirtæki og er með starfsemi í Rússlandi. Hefur Mondelez ekki dregið seglin saman þar í landi nema að litlu leyti þrátt fyrir stríðsrekstur Rússa í Úkraínu.

„Fjármagna sprengjuherferðir“

Í lok maí lýstu úkraínsk stjórnvöld, það er sú ríkisstofnun sem berst gegn spillingu (NACP), að Mondelez væri einn af styrktaraðilum innrásar Rússa í Úkraínu. En Mondelez greiddi 61 milljónir dollara, eða rúma 8 milljarða króna, í skatt til Rússlands árið 2022 vegna starfsemi þriggja verksmiðja.

„Allir skattar sem dótturfyrirtækið Mondelez í Rússlandi greiðir fara beint í stríðsrekstur Pútíns. Þetta fjármagnar sprengjuherferðir gagnvart okkur,“ sagði Agía Sagrebelska, yfirmaður hjá NACP við sænska dagblaðið Aftonbladet.

IKEA súkkulaði í staðinn

Í yfirlýsingu IKEA segir að fyrirtækið hyggist „fasa út“ vörur frá Mondelez. Í staðinn verður súkkulaði sem IKEA framleiðir sjálft sett í hillurnar. IKEA hefur ekki sagt beinum orðum að Mondelez vörur verði teknar úr sölu vegna starfseminnar í Rússlandi.

Margir fara í IKEA gagngert til þess að borða eða kaupa súkkulaði. Vísir/Vilhelm

Fleiri fyrirtæki hafa tekið Mondelez vörur úr sölu, þar á meðal flugfélagið SAS og SJ, stærsta járnbrautarfyrirtæki Svíþjóðar.

ATH UPPFÆRT

Í upphaflegri frétt stóð að IKEA á Íslandi hefði ekki fengið tilmæli frá Svíþjóð um að taka Mondelez vörur úr hillum. Hið rétta er að það sama gildir hér á landi og annars staðar. Samkvæmt Stefáni Dagssyni framkvæmdastjóra verða Mondelez vörur smám saman fasaðar út en IKEA sælgæti kemur í staðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×