Handbolti

„Frábær hópur þar sem allir eru mjög góðir vinir“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Benedikt í eldlínunni í dag.
Benedikt í eldlínunni í dag. IHF

Benedikt Gunnar Óskarsson, leikstjórnandi íslenska U-21 árs landsliðsins í handbolta var að vonum himinlifandi með að næla í bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu eftir sigur gegn Serbíu í Berlín í dag.

Viðureign Íslands við Serbíu í bronsleiknum var kaflaskipt og Benedikt Gunnar segir að stuðningurinn úr stúkunni hafi skipt sköpum. Þá hafi Brynjar Vignir Sigurjónsson lokað markinu á löngum köflum sem hafi reynst mikilvægt

„Þetta var skrýtin byrjun og við vorum mjög lélegir í fyrri. Svo kom höllin með okkur í þeim seinni og það er yndisleg tilfinning að ná í medalíu með landsliðinu.

Við náðum að brjóta meira á þeim í seinni hálfleik og Brynjar var frábær í markinu fyrir aftan sterka vörn,“ sagði Benedikt Gunnar Óskarsson, fyrirliði íslenska liðsins. Íslenska liðið fékk á sig 10 mörk í seinni hálfleik. 

Benedikt Gunnar hefur verið að glíma við meiðsli á mótinu og hefur af þeim sökum ekki getað spilað eins mikið og ella. 

„Ég hef verið brjálaður að geta ekki spilað meira og það er afar ánægjulegt að geta endað þetta á leik þar sem ég spila mikið og við náum að klára mótið með geggjuðum sigri. Þetta er frábær hópur þar sem allir leikmenn liðsins eru mjög góðir vinir. 

Við ýtum í burtu því sem er í gangi þegar við mætumst með félagsliðunum og erum samtaka í því að ná árangri saman þegar við erum með landsliðinu,“ sagði Valsarinn um stemminguna hjá íslenska liðinu. 


Tengdar fréttir

„Við erum allir í skýjunum“

Brynjar Vignir Sigurjónsson var ein af hetjum íslenska U-21 árs landsliðsins sem vann til bronsverðlauna á HM í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×