Handbolti

Aðgerð Gísla heppnaðist vel en EM stendur tæpt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var jákvæður eftir aðgerðina.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var jákvæður eftir aðgerðina. Instagram/@scmagdeburg

Gísli Þorgeir Kristjánsson er búinn að fara í aðgerð á öxl en hann þurfti að gangast undir hans eftir að hann fór úr axlarlið á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar.

Aðgerðin var framkvæmd á Schulthess sjúkrahúsinu í Zurich í Sviss.

Magdeburg sagði frá því á miðlum sínum í dag að aðgerð Gísla hafi heppnaðist vel sem eru góðar fréttir fyrir alla ekki síst fyrir Gísla og íslenska handboltalandsliðið.

Búist er hins vegar við því að Gísli verði frá í sex mánuði og að Magdeburg reikni ekki með honum fyrr en eftir vetrarfríið.

Það þýðir væntanlega það að Gísli spilar ekkert fyrir Evrópumótið í janúar og mun því að öllum líkindum ekki vera með íslenska landsliðinu á því móti. EM stendur því mjög tæpt eins og staðan er núna.

Gísli meiddist í undanúrslitunum en náði að tjasla sér saman fyrir úrslitaleikinn þar sem hann var í lykilhlutverki að landa sigri.

Gísli var síðan kosinn mikilvægasti leikmaður úrslitahelgarinnar.

Gísli gat vissulega spilað úrslitaleikinn en það var alltaf vitað að hann þyrfti að gangast undir aðgerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×