Innlent

Hættu­legur gróður­elda­reykur bætist við gasið

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Gunnar hvetur fólk til að fara varlega í kringum gosstöðvarnar. Hættan sé nú tvöföld.
Gunnar hvetur fólk til að fara varlega í kringum gosstöðvarnar. Hættan sé nú tvöföld.

Mikill reykur frá gróðureldum bætist við gasmengunina í Litla Hrút. Loftgæðin í kringum gosstöðvarnar eru því mun verri en í eldgosunum í Fagradalsfjalli og Meradölum.

Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir og prófessor við Háskóla Íslands, segir að gróðureldareykurinn í gosinu í Litla Hrút sé viðbót við gasmengunina. Kvikugösin séu mjög svipuð og í fyrri eldgosum á Reykjanesi en gróðureldareykurinn sé mjög óhollur.

Strókurinn úr eldgjánni er mest megnis vatnsgufa sem myndar stórt ský yfir gosstöðvunum. Hin eitruðu kvikugös sem fylgja eru meðal annars brennisteinsdíoxíð, kolmónoxíð og koldíoxíð.

Þetta eru gös sem eru ertandi fyrir augun. Fólki klæjar, hóstar og finnur fyrir óþægindum í hálsi. Í mjög miklu magni getur gasið verið skaðlegt fyrir lungun en að sögn Gunnars fer það eftir því hversu viðkvæmt fólk er. Til dæmis getur gasið aukið á astmasjúkdóma.

„Við ráðleggjum fólki með undirliggjandi sjúkdóma í öndunarfærum að vera duglegt að nota lyfin sín og ekki hætta sér of nálægt þessu,“ segir Gunnar um kvikugasið.

Vond áhrif á hraust fólk

Gróðureldareykurinn, sem myndast við mosabruna, er mun verri. „Það er best fyrir alla að vera sem minnst í honum,“ segir Gunnar. „Fólk lýsir miklum sviða í augum og óþægindum í öndunarfærum. Það gildir líka um þá sem eru nokkuð hraustir. Sumir þurfa ekki að vera nema nokkrar mínútur í reyknum til að finna mikið fyrir honum.“

Við mikinn bruna getur súrefni hreinlega klárast á ákveðnum svæðum en Gunnar á ekki von á að það gerist við Litla Hrút. Reykurinn er engu að síður hættulegur.

„Við þekkjum langtímaafleiðingarnar ekki vel og því hvetjum við fólk til að fara varlega,“ segir hann.

Þynnist fljótt út

Aðspurður um íbúa í nærliggjandi þéttbýlisstöðum segir Gunnar að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af gróðureldareyknum. Sótagnirnar setjast á jörðina um leið og reykurinn er farinn og þetta þynnist fljótt út.

Fyrst og fremst séu það ferðamenn sem leggja leið sína að gosstöðvunum sem þurfa að hafa áhyggjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×