Íslenski boltinn

Sjáðu þegar Björn Zoëga kom úr stúkunni og kippti Ólafi Kristófer aftur í lið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Björn mætti úr stúkunni til að kíkja á puttann á Ólafi Kristófer.
Björn mætti úr stúkunni til að kíkja á puttann á Ólafi Kristófer. Stöð 2 Sport

Ólafur Kristófer Helgason varð fyrir því óláni að fara úr lið á fingri þegar Fylkir beið lægri hlut gegn Val að Hlíðarenda í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld, lokatölur 2-1 Val í vil. Sem betur fyrir Ólaf Kristófer var Björn Zoëga, forstjóri Karólínska-sjúkrahússins í Svíþjóð, á staðnum.

Það var á 52. mínútu leiksins sem Fylkismaðurinn fyrrverandi Orri Hrafn Kjartansson kom Val yfir með þrumskoti sem Ólafur Kristófer náði þó að slæma hendi í. Því miður fyrir Ólaf Kristófer fór hann úr lið eins og kom fram í textalýsingu Vísis:

„Ég er ekki læknir en hann er sárþjáður. Sjúkraþjálfarar beggja liða veita honum aðstoð, það dugir ekki til og Björn Zöega, forstjóri Karolinska og ráðgjafi Heilbrigðisráðherra, hleypur úr stúkunni inn á völlinn. Þvílíkar senur hérna. Leikurinn er enn stopp fjórum mínútum síðar.“

Á endanum tókst að koma Ólafi Kristófer í lið og náði hann að klára leikinn. Getur hann þakkað Birni Zoëga fyrir en sá starfar í dag í Svíþjóð ásamt því að vera ráðgjafi Heilbrigðisráðherra. Hann er menntaður  bæklunarskurðlæknir og fyrrverandi forstjóri Landspítalans.

Þá er Björn öllum hnútum kunnugur á Hlíðarenda en hann lék 156 leiki fyrir Val í efstu deild karla í  körfubolta frá 1982 til 1990. Varð hann Íslands- og bikarmeistari með Val árið 1983 ásamt því að komast í lokaúrslitin 1984 og 1987.

Hér að neðan má sjá myndband af atvikinu.

Klippa: Kippti putta markvarðar Fylkis aftur í lið

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×