„Ráðuneytið hefur sett af stað verkefni til að kortleggja stöðuna varðandi loftgæði í leik- og grunnskólum landsins,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, og að Umhverfisstofnun muni sinna verkefninu. Settar eru þrjár milljónir í verkefni og munu niðurstöður liggja fyrir á næstu mánuðum.
„Þetta er alvöru mál sem hefur valdið miklum skaða og mun valda því áfram ef ekki er almennilega tekið á því.“
Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi síðasta föstudag og í minnisblaði sem lagt var fyrir ríkisstjórnina er farið yfir stöðu mála, hvaða reglugerðir eiga við, hverju þær taki á og hverju ekki. Þar er bent á að engin opinber gögn liggi fyrir og að síðasta rannsókn sem hafi verið framkvæmd sé frá 2009 og hafi tekið til grunnskóla í Reykjavík.
Eftirliti er sinnt af sveitarfélögum og Umhverfisstofnun en Guðlaugur segir að með kortlagningunni fáist heildstæð sýn og þá sér hægt að meta hvort að ráðuneytið þurfi að stíga fastar inn í málið.
„Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að við þurfum að taka af því af fullri alvöru,“ segir Guðlaugur og að það verði til dæmis kannað hvort að allir séu að vinna eftir sömu reglum en að aðalatriðið sé að það skorti betri upplýsingar og þegar þær liggi fyrir sé hægt að taka ákvörðun.
Spurður hvað hafi orðið til þess að ráðuneytið stígi nú inn í þetta mál segir Guðlaugur að alvarleiki málsins hafi kallað á það.
„Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að við erum búin að sjá síendurteknar fréttir um að þessi mál séu ekki í lagi og við viljum hafa loftgæðin í lagi, og það sérstaklega hjá leik- og grunnskólabörnum.“
Hann segir að ráðuneytið líti til marga þátta, það sé verið að sameina stofnanir og einfalda verklag. Það sé enginn ánægður með stöðuna eins og hún sé í dag.
„Og allra síst við og það er mikilvægt að allir sem hafi einhverju hlutverki að gegna þeir sinni því. Það eru allir sammála um að það þurfi að kortleggja og að við höfum sem bestar upplýsingar því við viljum ekki hafa þetta svona. Við viljum að leik- og grunnskólabörn fái að njóta öryggis í hvívetna og þá sérstaklega þegar kemur að loftgæðum,“ segir ráðherra.