Innlent

Banda­rískur kjarn­orku­kaf­bátur við Ís­land

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Tveir áhafnarmeðlimir baksa ofan á USS Delaware. Landhelgisgæslan fylgist vel með í bakgrunni.
Tveir áhafnarmeðlimir baksa ofan á USS Delaware. Landhelgisgæslan fylgist vel með í bakgrunni. Landhelgisgæslan

Bandaríski kjarnorkukafbáturinn USS Delaware kom í þjónustuheimsókn í íslenska landhelgi í dag. Varðskipið Þór fylgdi kafbátnum frá ytri mörkum landhelginnar í Stakksfjörð þar sem áhafnarmeðlimir voru teknir um borð í kafbátinn.

Þetta segir í færslu Utanríkisráðuneytisins á Facebook.

Landhelgisgæsla Íslands leiddi framkvæmd heimsóknarinnar í nánu samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, Geislavarnir ríkisins og utanríkisráðuneytið í samræmi við settar verklagsreglur.

Samkvæmt tilkynningunni gekk vel að flytja mennina um borð. Var það gert nokkra kílómetra utan við Helguvík. Kafbáturinn er orrustukafbátur af Virginia-gerð og ber því ekki kjarnavopn.

Kjarnorkukafbáturinn USS Delaware og varðskipið Þór við Helguvík í dag.Landhelgisgæsla Íslands

Kafbátaheimsóknir verði tíðari

Þetta er í annað sinn sem kjarnorkuknúinn kafbátur bandaríska sjóhersins kemur í þjónustuheimsókn í íslenska landhelgi frá 18. apríl síðastliðinn. 

Þá tilkynnti utanríkisráðherra að slíkum kafbátum yrði heimilað að hafa stutta viðkomu úti fyrir ströndum Íslands til að taka kost og skipta út hluta áhafnar. 

Ákvörðunin var þá sögð vera liður í stefnu íslenskra stjórnvalda að styðja við aukið eftirlit og viðbragðsgetu bandalagsríkja á Norður-Atlantshafi.

„Þjónustuheimsóknirnar stuðla að því að efla samfellt og virkt kafbátaeftirlit bandalagsríkja sem tryggir betri stöðuvitund og eykur öryggi neðansjávarinnviða á borð við sæstrengi á hafsvæðinu í kringum Ísland. Tíðni heimsókna mun ráðast af þörf hverju sinni,“ sagði í tilkynningu sem birtist 18. apríl á vef Stjórnarráðsins.


Tengdar fréttir

Fyrsta þjónustu­heim­sókn banda­rísks kjarn­orku­kaf­báts í dag

Í dag fór fram fyrsta þjónustuheimsókn bandarísks kjarnorkukafbáts í íslenskri landhelgi. Landhelgisgæslan leiddi framkvæmdina í samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, Geislavarnir ríkisins og utanríkisráðuneytið. Vel gekk að flytja kost um borð í bátinn.

Kjarnorkuknúnir kafbátar nærri Helguvík

Kjarnorkuknúnum orrustukafbátum bandaríska sjóhersins verður heimilt að hafa viðkomu við Ísland og von er á fyrsta kafbátnum á næstunni. Utanríkisráðherra hefur áréttað sérstaklega við bandarísk stjórnvöld að þeir megi ekki bera kjarnorkuvopn innan íslenskrar landhelgi.

Kjarn­orku­knúnir kaf­bátar fá að hafa við­komu við Ís­land

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur tilkynnt bandarískum stjórnvöldum að kjarnorkuknúnum kafbátum sjóhers þeirra verður heimilt að hafa stutta viðkomu við Ísland. Kafbátarnir sem fá heimild til að að hafa viðdvöl hér bera ekki kjarnavopn og eru ekki útbúnir til þess. Búist er við að fyrsti kafbáturinn komi á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×