„Samstaðan var áþreifanleg. Það var mikið grátið og mikið öskrað. En líka mikið um faðmlög. Þetta var virkilega einstök stund,“ segir Lísa Margrét Gunnarsdóttir, ein af skipuleggjendum Druslugöngunnar sem var gengin í ellefta skiptið í dag. Frá Hallgrímskirkju að Austurvelli.
Þegar Vísir náði tali af Lísu Margréti var dagskránni lokið og verið að taka saman.
Eins og sjá má á myndunum var gríðarlegur fjöldi saman kominn á göngunni í ár.

„Við höfum enga hugmynd eins og er um hversu margt fólk mætti. Það flaug dróni yfir sem gæti gefið vísbendingar um það. En mætingin fór fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Lísa Margrét.
Skömminni skilað í ræðu og tónum
Meðal þeirra sem fluttu erindi á fundinum voru aktívistahópurinn Öfgar og hin afganska Zahra Hussaini sem starfar sem femínskur sjálfsvarnarþjálfari. Þá var táknmálstúlkurinn Margrét Baldursdóttir að túlka sína síðustu göngu og hélt í kjölfarið ræðu þar sem hún skilaði sinni áratuga gömlu skömm.

Einnig voru flutt tónlistaratriði. Meðal annars frá tónlistarkonunum Lúpínu, Silju Rós og Þórunni Sölku. En Þórunn Salka frumflutti lag sem hún samdi til að vinna úr sínum tilfinningum í kjölfar kynferðisofbeldis.
Þá var Mars Proppé kynnir á fundinum.
Lísa Margrét segir að allt hafi gengið vel enda sé sjálfboðaliðateymið öflugt. „Þetta stendur okkur mörgum mjög nærri. Þegar þú ert með svona góðan hóp af fólki sem styður þolendur saman þá gerast stórkostlegir hlutir,“ segir hún.