Í tilkynningu frá Sæferðum segir að tilboð félagsins hafi verið yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar og að gert sé ráð fyrir því að í hönd fari samningaviðræður við Vegagerðina um rekstur á Breiðafjarðarferju fyrir árin 2023-2026, með möguleika á framlengingu allt að tvisvar sinnum, eitt ár í senn.
Sá samningur fæli í sér sérleyfi fyrir Vegagerðina til að annast fólks-, bifreiða- og vöruflutninga á milli Stykkishólms og Brjánslækjar, með viðkomu í Flatey.
Röst leysir Baldur af
Líkt og greint var frá fyrir skömmu mun ný ferja, Röst, senn sigla um Breiðafjörð og leysa ferjuna Baldur af hólmi. Baldur þykir ekki lengur hæfur til siglinga um fjörðinn. Í tilkynningu segir að Sæferðir muni sigla Baldri til 15. október en þá verði hann afhentur nýjum eiganda.
„Þar sem ekki liggur enn fyrir hvort samningar náist um rekstur nýju ferjunnar þurfa Sæferðir því miður að segja upp ráðningarsamningum við allt starfsfólk fyrirtækisins. Um er að ræða 22 fastráðna starfsmenn. Þar sem um annað skip er að ræða en hefur verið í þessum siglingum síðustu ár þarf að skoða hver mönnunarþörf þess er og því er ekki hægt að fullyrða á þessari stundu að allt starfsfólk verði endurráðið ef Sæferðir fá áframhaldandi samning við Vegagerðina. Sæferðir vonast til að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst.“
Þykir leitt að þurfa að segja upp starfsfólki
Í tilkynningu er haft eftir Jóhönnu Ósk Halldórsdóttir, framkvæmdastjóra Sæferða, að fyrirtækinu þyki afar leitt að þurfa að grípa til uppsagna, enda vinni frábær hópur starfsfólks hjá Sæferðum og mörg hafi starfað hjá félaginu um langt skeið.
„Ferjureksturinn er grundvöllurinn fyrir tilvist fyrirtækisins og við höfum enn þá ekkert í hendi um að hann verði áfram hjá okkur. Við höfum upplýst helstu hagsmunaaðila á svæðinu um stöðuna og vonumst til að línur skýrist sem allra fyrst. Við vorum með starfsmannafund fyrr í kvöld þar sem fólk var upplýst um niðurstöðu útboðsins og því tilkynnt um uppsagnirnar. Við vonumst til að flest starfsfólk fái boð um starf á nýju ferjunni, náist samningar um reksturinn við Vegagerðina,“ er haft eftir henni.