Fótbolti

Jón Þórir hættur með Fram

Siggeir Ævarsson skrifar
Jón Þórir Sveinsson niðurlútur í leikslok gegn Stjörnunni í gær
Jón Þórir Sveinsson niðurlútur í leikslok gegn Stjörnunni í gær Vísir/Pawel

Stjórn Knattspyrnudeildar Fram hefur sagt Jóni Þóri Sveinssyni upp störfum sem þjálfara liðsins. Jón Þórir hefur verið þjálfari liðsins síðan 2018 og stýrði því upp úr 1. deild haustið 2021. Fram tapaði í gær fjórða leik sínum í röð og situr í næstneðsta sæti Bestu deildarinnar.

Framarar greina sjálfir frá þessum tíðindum í fréttatilkynningu á vefsíðu sinni. Þar er Jóni þakkað fyrir hans framlag til félagsins, bæði sem leikmaður og þjálfari, og ákvörðunin sé erfið en nauðsynleg.

„Stjórn knattspyrnudeildar telur breytingar nauðsynlegar á þessum tímapunkti til að tryggja áframhaldandi veru liðsins í Bestu deildinni. Ásamt Nonna lætur Þórhallur Víkingsson einnig af störfum og þökkum við honum fyrir hans framlag. Við óskum Nonna og Þórhalli alls hins besta í framtíðar verkefnum.“

Þá kemur einnig fram í tilkynningu að Ragnar Sigurðsson og Aðalsteinn Aðalsteinsson hafi þegar tekið við þjálfun liðsins en einhverjar sögusagnir höfðu verið á lofti um að Ágúst Gylfason myndi taka við starfinu. 

Gengi Fram hefur ekki verið upp á marga fiska í sumar, aðeins fjórir sigrar komnir í hús í 17 leikjum og liðið í töluverðri fallhættu. Liðið fékk 4-0 skell gegn Stjörnunni í gær sem virðist hafa verið síðasti naglinn í kistulokið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×