Innlent

„Ögrun við tungu­málið okkar“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, hefur mjög sterka skoðun þegar kemur að merkingum, íslenskan eigi að koma fyrst.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, hefur mjög sterka skoðun þegar kemur að merkingum, íslenskan eigi að koma fyrst. Vísir/Vilhelm

Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra segir að allar merkingar eigi fyrst að vera á íslensku. Það hafi til að mynda verið ögrun við íslenska tungu þegar Isavia setti upp skilti sem voru fyrst á ensku.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, segir í samtali við fréttastofu að hún hafi mjög sterka skoðun á því þegar íslenska er ekki notuð fyrst í merkingum hér á landi. „Þar erum við farin út af sporinu.“

Reglulega vekja merkingar á ensku athygli netverja sem bölva og gagnrýna fyrirtæki og stofnanir fyrir að setja íslenskuna ekki í fyrsta sæti. Enskan hefur orðið mun algengari í merkingum og auglýsingum hér á landi síðan ferðaþjónustan fór að verða ein af helstu atvinnugreinum landsins.

Árið 2016 fjallaði Vísir um hvernig flestallar merkingar í miðbænum væru á ensku. Síðan þá hefur reglulega verið vakin athygli á því þegar auglýsingar og vörur eru ekki á íslensku.

„Það eiga allar merkingar að vera fyrst á íslensku,“ segir Lilja. Ferðaþjónustan fari út af sporinu þegar hún notar ekki íslensku fyrst. 

Til að mynda vekur hún athygli á því þegar sett voru upp skilti á Keflavíkurflugvelli sem voru fyrst á ensku og svo á íslensku. „Isavia hefur sagst ætla að breyta skiltunum sínum en það voru mikil mistök hjá þeim að setja upp skilti fyrst á ensku og ögrun við tungumálið okkar.“

Lilja segist ætla að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi í haust. Með tillögunni eigi að leggja mun meiri áhersu á tungumálið. 

„Annars vegar fyrir þá innflytjendur sem búa hér, þar sem við erum að setja meiri skyldur á þau að læra íslensku. Hins vegar að íslenskan sé miklu sýnilegri en hún hefur verið og við erum að fara í samstarf við ferðaþjónustuna og atvinnulífið um að tekin verði mun ákveðnari skref til þess að gera íslenskunni hærra undir höfði og gera hana sýnilegri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×