Enn er ekki vitað hvað orsakaði leka í Sporthúsinu í Kópavogi í dag. Loka þurfti fyrir vatn í stórum hluta Kópavogs vegna lekans en eftir að löngum tíma hafði verið varið í að leita að uppruna hans var að lokum ákveðið að taka lögn í sundur fyrir ofan húsið og leiða vatnið aftur inn með öðrum hætti.
Viðgerð á lögninni fer fram eftir helgi en uppruni lekans verður líklega ekki ljós fyrr en henni lýkur.
Fjölmennt lið slökkviliðs og starfsmanna bæjarins var við vettvang þegar fréttastofa leit við í dag en annar eigenda Sporthússins var uppi í bústað þegar hann fékk símtal í morgun um lekann.
„Dagurinn er búinn að vera nokkuð fjörugur. Hann byrjaði á því að ég fékk símtal um þetta. Góð byrjun á verslunarmannahelginni. En þetta er eins og það er. Spyr ekki að stund eða stað. Það var bara allt á floti,“ segir Þröstur og að honum hafi verið sagt að drífa sig í bæinn.
Hann segir að þau hafi verið í bölvuðum vandræðum því það hafi tekið svo langan tíma að finna orsökina en slökkviliðið fór ekki af vettvangi fyrr en á fjórða tímanum í dag.
Vatn dreifðist nokkuð víða en hann segist feginn að lekinn hafi byrjað þegar fólk var á staðnum. Vatnið lak yfir um 700 fermetra svæði og hann telur það ekki hafa verið mjög djúpt.

Hann telur að verulegt tjón hafi orðið á stöðinni.
„Það er ómögulegt að segja um tjón en auðvitað er það gríðarlegt tjón þegar allt fer á flot og undir alla veggi en vonandi ekki stórtjón. Þetta ætti ekki að trufla starfsemina mikið,“ segir Þröstur en á meðan viðgerðinni stóð var ekki hægt að fara í sturtu á stöðinni eða nota salernið.
Hann segir að tryggingafélagið hans sé byrjað að vinna í málinu en á von á því að það verði lið við þurrk í stöðinni alla helgina og að viðgerð getu svo hafist að því loknu. Gera má ráð fyrir því að viðgerð á lögninni sjálfri fyrir utan hefjist á þriðjudag.