Innlent

„Af hverju erum við alltaf að forðast ís­lenskuna?“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Eiríkur segist hafa áhyggjur af því hvaða hugmyndir um íslenskuna slíkar nafnabreytingar opinberi.
Eiríkur segist hafa áhyggjur af því hvaða hugmyndir um íslenskuna slíkar nafnabreytingar opinberi.

Ei­ríkur Rögn­valds­son, prófessor emi­ritus í ís­lenskri mál­fræði, segir að sér þyki nýtt nafn Rúm­fata­lagersins, JYSK, sér­lega ó­heppi­legt. Ó­víst sé hvernig eigi að bera það fram auk þess sem það falli ekki vel inn í ís­lensku. Aðalatriðið sé þó að ein­staka nafna­breytingar skipti ekki máli í stóra sam­henginu, heldur hefur Eiríkur á­hyggjur af því hvernig þær endur­spegla ríkjandi hug­myndir um tungu­málið.

„Eitt og eitt heiti skiptir ekki máli þannig séð, en maður verður að horfa á þetta í sam­hengi og hvað svona nafn­breyting sýnir um hug­myndir okkar um ís­lensku og út­lensku. Af hverju erum við alltaf að forðast ís­lenskuna?“ spyr Ei­ríkur í sam­tali við Vísi.

Eins og komið hefur fram hyggst Rúm­fata­lagerinn breyta nafni sínu í JYSK, að danskri fyrir­mynd, í lok septem­ber. For­svars­menn segja nafn­breytinguna síðasta skrefið í viða­miklum breytingum og segja nýja nafnið styðja á­herslur sínar á aðrar vörur en rúm­föt, þar sem Rúm­fata­lagerinn endur­spegli ekki lengur vöru­úr­val. Um er að ræða enn eina breytinguna á ís­lenskum nöfnum á stuttum tíma en í júní var til­kynnt að sóda­vatnið Toppur yrði Bonaqua.

Ó­heppi­legt hugar­far

„Svona ein­angruð dæmi skipta í raun engu máli. Það skiptir engu máli þó að ein­hver vara eins og Toppur eða eitt­hvert fyrir­tæki eins og Rúm­fata­lagerinn breyti um nafn. Það sem ég hef miklu meiri á­hyggjur af er í raun og veru það sem liggur að baki. Þetta við­horf, eða hug­mynd eða trú að er­lend heiti séu á ein­hvern hátt heppi­legri og að ís­lensk heiti séu, að því er virðist, hall­æris­leg,“ segir Eríkur.

Hann segir það hafa tíðkast um langa hríð hér á landi að fyrir­tæki beri er­lend nöfn, eða allt frá alda­mótum 19. og 20. aldar hið minnsta. Það sé hins­vegar nýjung að nú taki fyrir­tæki upp er­lend nöfn, bæði á sér sjálfum og vörum sínum í stað ís­lenskra sem hefð sé fyrir.

„Ég hef miklu meiri á­hyggjur af sjúk­dómnum sjálfum heldur en sjúk­dóms­ein­kennunum. Þetta bara ber vott um þetta hugar­far, sem er ó­heppi­legt, að er­lend heiti virki á ein­hvern hátt betur heldur en ís­lensk.“

Falli illa inn í ís­lenskuna

Ei­ríkur segir að sér þyki nafnið JYSK sér­lega ó­heppi­legt þar sem ekki sé á hreinu hvernig eigi að bera það fram. Hvort segja eigi „Jisk“ með ís­lenskum á­herslum eða „Jusk“ með þeim dönsku.

„Þarna kemur náttúru­lega upp þessi vandi, hvernig á að bera þetta fram? Eigum við að líta svo á að þetta sé ís­lenskt orð og bera Y- fram eins og i, eins og við gerum í ís­lenskum orðum og segja „Jisk,“ eða eigum við að líkja eftir dönskum fram­burði og segja „Jusk“ eða eitt­hvað svo­leiðis? Þetta er nú strax eitt sem er ó­heppi­legt, finnst mér við þessa breytingu og kannski ekki alveg út­hugsað því hvernig sem þú berð það fram þá hljómar það ein­hvern veginn mjög undar­lega og fellur ekki inn í málið.“

Ei­ríkur segir ljóst að Rúm­fata­lagerinn hafi selt tölu­vert meira en bara rúm­föt um nokkurra ára skeið.

„Ókei látum það gott heita en það er engin af­sökun fyrir því að taka upp út­lenskt heiti. Það hefði alveg eins verið hægt að finna eitt­hvað ís­lenskt sem þá hentar betur.“

Eiríkur ræddi nafnbreytingu sódavatnsins Topps í Bonaqua í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í lok júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×