Innlent

Blóðugt barn eftir tilefnislausa á­rás í Kringlunni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Unnar Már Ástþórsson aðalvarðstjóri segir málið til rannsóknar.
Unnar Már Ástþórsson aðalvarðstjóri segir málið til rannsóknar. Vísir/Ívar/Vilhelm

Líkamsárás á bílastæði Kringlunnar um hádegisbil í gær er til rannsóknar hjá lögreglu. Um var að ræða barn á grunnskólaaldri sem kýldi annað á svipuðum aldri og hótaði með hnífi. Kona sem varð vitni að árásinni segir drenginn hafa verið blóðugan eftir árásina.

Unnar Már Ástþórsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir í samtali við Vísi að líkamsárásin sé til rannsóknar hjá lögreglu. DV greindi fyrst frá. Unnar segir um hóp ungmenna að ræða sem veist hafi að öðru ungmenni á bílastæðinu fyrir utan verslunarmiðstöðina. 

Árásarmaðurinn er að sögn Unnars ekki orðinn fimmtán ára. Rannsókn málsins sé á frumstigi.

Hrinti eldri konu til að ná til drengsins

Lilja Sigurgeirsdóttir einkaþjálfari var á leið í ræktina í Kringlunni í gær þegar hún varð vitni að árásinni. Hún var að ná í töskuna sína í aftursætið þegar hún heyrði í drengnum öskra á bílaplaninu.

„Þá sé ég hann þarna liggjandi á bílaplaninu,“ segir Lilja sem segir að tvær konur á besta aldri hafi jafnframt orðið vitni að árásinni. Árásarmaðurinn hafi hrint annarri þeirra til þess að komast að drengnum. 

„Hann var náttúrulega í gífurlegu sjokki þarna, sagðist ekki þekkja þá neitt og hafa fundið að þeir væru að elta sig.“

Fastagestir í Kringlunni

Þeir hafi á undan ógnað drengnum með hníf en Lilja segir drenginn hafa verið blóðugan þar sem hann lá á bílaplaninu. Lilja segir að öryggisverðir sem hún hafi rætt við hafi sagt að hópurinn sem um ræðir séu fastagestir í Kringlunni.

„Hann sagði mér að þeir vissu alveg hverjir þetta væru, það er eins og strákurinn hafi bara verið óheppinn að hafa verið þarna á sama tíma og þeir,“ segir Lilja sem bætir því við að atvikið sitji mjög í henni.

„Hversu ömurlegt er að hugsa til þess að ungmennin okkar séu ekki óhult fyrir hóp af ofbeldisfullum unglingum sem gera sér það að leik að vera ógeðslegir viðgangandi vegfarendur bara af því bara?“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×