Innlent

Stutt stopp Orbans á Ís­landi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Viktor Orban og Donald Trump hittust um miðjan október.
Viktor Orban og Donald Trump hittust um miðjan október. epa

Forsætisráðherra Ungverjalands gerði stutt stopp á Keflavíkurflugvelli í morgun. Hann er á leið til Bandaríkjanna til að funda með Bandaríkjaforseta.

Viktor Orbán flýgur í dag til Bandaríkjanna þar sem hann kemur til með að funda með Donald Trump Bandaríkjaforseta. 

Flugvél á vegum ungverska flugfélagsins WizzAir lenti rétt fyrir klukkan tólf á hádegi í dag á Keflavíkurflugvelli en ferðin var ekki auglýst á heimasíðu Isavia þar sem áætlaður brottfarar- og lendingartími flugferða er alla jafna birtur.

Flightradar24, vinsæl vefsíða þar sem hægt er að fylgjast með flugferðum í beinni, deildi á samfélagsmiðlinum X í morgun að sendinefnd Ungverja hefði tekið vélina á leigu til að komast frá Ungverjalandi til Washington DC. Þar kemur einnig fram að þrátt fyrir að flugvél líkt og þessi gæti flogið alla leiðina myndu ferðalangarnir gera stutt stopp á Íslandi.

Á Instgram-síðu Orbáns má sjá myndskeið frá upphafi ferðalagsins þegar hann stígur um borð í vélina og heilsar viðstöddum. Þá birti hann mynd af sendinefndinni um borð í vélinni.

Flugvélin lenti á Keflavíkurflugvelli rétt fyrir hádegi í dag og var flogið aftur af stað um einum og hálfum klukkutíma síðar. Flug til Washington frá Keflavíkurflugvelli tekur um sex og hálfa klukkustund. 

Orbán á síðan inni heimsókn í Hvíta húsið þar sem mögulega verður rætt um kaup Ungverjalands á rússneskri olíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×