Lífið

Game of Thrones-leikarinn Darren Kent látinn 36 ára að aldri

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Darren Kent, annar frá vinstri, ásamt leikurunum Nathalie Emmanuel, Emiliu Clark og Trevor Allan Davis sem hann lék með í Game of Thrones.
Darren Kent, annar frá vinstri, ásamt leikurunum Nathalie Emmanuel, Emiliu Clark og Trevor Allan Davis sem hann lék með í Game of Thrones. Facebook

Leikarinn Darren Kent, þekktastur fyrir leik sinn í Game of Thrones, er látinn 36 ára að aldri. Ekki kemur fram hvernig hann lést en hann hafði glímt við sjaldgæfan húðsjúkdóm, beinþynningu og liðagigt í mörg ár.

Umboðsskrifstofan Carey Dodd Associates greindi frá andláti hans á Facebook á þriðjudag. Þar kom fram að Kent hefði dáið friðsamlega umvafinn fjölskyldu og vinum.

Kent var fæddur og uppalinn í Essex. Hann lærði við leiklistaháskólann Italia Conti og útskrifaðist þaðan árið 2007. Fyrsta stóra rulla hans var í hryllingsmyndinni Mirrors árið 2008. 

Eftir það lék hann í fjölda kvikmynda, sjónvarpsþátta og stuttmynda, þar á meðal Snow White and the Huntsman, EastEnders, Shameless og Dungeons and Dragons: Honor Among Thieves sem kom út fyrr á árinu.

Þekktasta hlutverk hans var þó vafalaust þegar hann lék geitahirði sem fór með látna dóttur sína til Daenerys Targaryen eftir að hún var drepin af dreka í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×