Veður

Út­lit fyrir þokka­­lega bjarta menningar­nótt

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá menningarnótt 2018.
Frá menningarnótt 2018. vísir/vilhelm

Það er útlit fyrir þokkalega bjarta menningarnótt, að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Lægðin sem liggur suður af suðvesturhorni landsins mun láta að sér kveða í næstu viku.

„Það lítur út fyrir að það verði fremur hæg austlæg eða breytileg átt, megnið af deginu. Fer mest sennilega í 3-8 metra. Þokkalegt bjartviðri og jafnvel léttskýjað. Það er allavega útlit fyrir þokkalega bjartan dag,“ segir Eríkur Örn Jóhannesson í samtali við fréttastofu en bendir á að gróf spá sé enn í gildi fyrir helgina næstu.

Þá verði svipað hitastig, 12-15 stig yfir daginn. Hámarkshiti gæti náð hærra.

Staðaspá á laugardaginn klukkan 12.veðurstofan

„Það viðrar ágætlega til útiveru- og hlaupa,“ segir Eiríkur.

„Núna er lægð suður af okkur sem er að nálgast okkur í lok vikunnar. Hún er farin að stjórna veðrinu en það er ekki úrkomuband frá henni. Á föstudaginn ætti fyrsta úrkomubandið að ganga yfir frá henni en á laugardaginn er líklegt að það dúri frá henni.“

Búast megi því við einhvers konar vætu í næstu viku á suðvesturhorninu.

Fyrir austan og norðan lítur veðrið ágætlega út. „Það er meiri vindur og skýjaðra. Almennt þungbúnara, það verður einhver væta,“ segir Eiríkur að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×