Erlent

Hækka viðbúnað vegna hryðjuverka í Svíþjóð

Kjartan Kjartansson skrifar
Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, vildi ekki tjá sig um fréttirnar af aukinni hryðjuverkaógn í morgun.
Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, vildi ekki tjá sig um fréttirnar af aukinni hryðjuverkaógn í morgun. Vísir/EPA

Sænska öryggislögreglan SÄPO ætlar að hækka viðbúnað vegna hryðjuverkaógnar upp á næsthæsta stig í dag. SAPO boðar til blaðamannafundar síðar í dag til þess að ræða versnandi stöðu öryggismála í landinu.

Sænska dagblaðið Dagens nyheter hefur það eftir heimildum sínum að SÄPO ætli að hækka viðbúnaðarstigið úr þremur í fjóra á skala sem nær upp í fimm. Það þýðir að ákveðin hryðjuverkaógn sé til staðar.

Ekki kemur fram hvers vegna til stendur að hækka viðbúnaðarstigið en öryggislögreglan hefur áður varað við því að Svíþjóð geti orðið að skotmarki hryðjuverkamanna vegna ítrekaðra samkoma þar sem kveikt er í Kóraninum, helgiriti múslima. Í vikunni bárust fréttir af því að hryðjuverkasamtökin al-Qaeda hefðu hvatt til árása á Svíþjóð og Danmörku.

Blaðamannafundur SÄPO á að hefjast klukkan 13:00 að sænskum tíma, klukkan ellefu að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir

Al-Qa­eda lýsir Dan­mörku og Sví­þjóð stríð á hendur

Íslömsku hryðjuverkasamtökin Ríki íslams kalla eftir árásum á Danmörk og Svíþjóð vegna nýlegra Kóranbrenna í löndunum tveimur. Fyrrverandi leyniþjónustumaður segir að taka verði hótanir samtakanna grafalvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×