Erlent

Dæmd til 22 ára fyrir að reyna að myrða Trump

Árni Sæberg skrifar
Ferrier tókst ekki að myrða Trump.
Ferrier tókst ekki að myrða Trump. Alex Brandon/Lögreglan í Hidalgo sýslu/AP

Kanadísk kona hefur verið dæmd til 22 ára langrar fangelsisvistar fyrir að hafa sent Donald Trump bréf sem innihélt hið baneitraða rísín. Fyrir dómi sagðist hún ekki sjá eftir neinu nema að hafa ekki tekist að drepa forsetann þáverandi.

Pascale Ferrier, sem er 56 ára gömul, var handtekin í september árið 2020 eftir að starfsmenn Hvíta Hússins náðu að stöðva afhendingu bréfsins áður en það barst Donald Trump. 

Í bréfinu hvatti Ferrier forsetann þáverandi til þess að hætta við framboð sitt í forsetakosningunum sem haldnar voru í nóvember sama ár. Bréfið innihélt ekki aðeins hvatninguna og vel valin fúkyrði í garð Trumps, heldur einnig eitrið rísín. 

Engin lækning er til við eitrun af völdum rísíns, sem dregur þá sem komast í snertingu við það til dauða á 36 til 72 klukkustundum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins um málið.

Játaði skýlaust og sagðist vera aðgerðasinni

Ferrier játaði brot sín fyrir dómi í janúar þessa árs og flutti langa ræðu þar sem hún sagðist ekki sjá eftir því að hafa sent eitrið heldur aðeins að hafa ekki tekist að stöðva Trump. Þá sagðist hún vera aðgerðasinni en ekki hryðjuverkamaður.

„Ég vil leita friðsamlegra leiða til þess að ná markmiðum mínum,“ er haft eftir henni.

Dómari í Washington D.C. dæmdi hana til 262 mánaða fangelsisvistar, rétt tæplega 22 ára, í dag. Þá verður hún flutt úr landi að afplánun lokinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×