Erlent

Hleypa geisla­virku vatni út í sjó

Árni Sæberg skrifar
Fumio Kishida tilkynnti í morgun að áætlunin hefjist á fimmtudag.
Fumio Kishida tilkynnti í morgun að áætlunin hefjist á fimmtudag. Rodrigo Reyes Marin/AP

Japanir munu byrja að hleypa vatni úr Fukushima-kjarnorkuverinu út í sjó á fimmtudag. Vatnið var notað til þess að kæla kjarnaofna versins þegar þeir bráðnuðu eftir gríðarlegan jarðskjálfta árið 2011.

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, tilkynnti þetta á blaðamannafundi í morgun. Þar sagði hann að hann hefði skipað Tepco, fyrirtækinu sem rak kjarnorkuverið, að hefja undibúning til þess að hleypa vatninu út í sjó sem fyrst. 

Áætlun um það var samþykktar fyrir tveimur árum en var afar umdeild, sér í lagi meðal fiskveiðimanna í Japan. Í frétt Reuters um málið segir að yfirvöld í Japan hafi tilkynnt í gær að þau hefðu náð samkomulagi við sjávarútveginn í landinu um að gera áætlunina að veruleika.

„Hleypið ekki menguðu vatni út í sjó.“ Japanir mótmæltu nokkuð margir fyrir framan ráðherrabústaðinn í Tókýó í morgun. EPA-EFE/FRANCK ROBICHON

„Ég lofa að við munum taka á okkur alla ábyrgð á því að tryggja framtíð sjávarútvegsins, jafnvel þó það muni taka okkur áratugi,“ sagði Kishida í gær.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin samþykkir

Ákvörðun um að hleypa vatninu út í sjó var tekin fyrir meira en tveimur árum en unnið hefur verið að því að hreinsa mestu mengunina úr vatninu. Það mun þó enn innihalda þrívetni, sem er geislavirkt en tæknilega erfitt að aðskilja frá vatni.

Japanir hafa sagt öruggt að hleypa vatninu út í sjó þrátt fyrir að það sé enn geislavirkt. Alþjóðakjarnorkumálastofnun Sameinuðu þjóðanna samþykkti áætlun Japana, sem talin er munu taka allt að fjóra áratugi, í júlí síðastliðnum.

Þá sagði stofnunin hún samræmdist alþjóðlegum stöðlum um magn þrívetnis sem má hleypa út í sjó og að áhrif hennar á umhverfi og fólk yrðu smávægileg.


Tengdar fréttir

Vatnið úr Fukushima losað út í sjó í vor eða sumar

Stjórnvöld í Japan hyggjast hefja losun milljóna tonna af vatni úr kjarnorkuverinu í Fukushima í hafið í vor eða sumar. Ákvörðunin hefur vakið mikla reiði meðal fiskara og nágrannaríkja Japan.

Ætla að veita geislavirku vatni út í Kyrrahafið

Yfirvöld í Japan ætla að veita rúmlega milljón tonnum af geislavirku vatni úr Fukushima kjarnorkuverinu út í sjó. Nærri því áratugur er liðinn frá því að kjarnorkuverið skemmdist í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×