Ríkisútvarpið greindi frá því í gærkvöldi þegar Tý var siglt frá höfn við Skarfabakka, sennilega í hinsta sinn.
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Fagurs, félagsins sem keypti skipin tvö síðasta sumar fyrir 51 milljón króna, segir í samtali við Vísi að skipin hafi verið seld þann 30. júní síðastliðinn.
Hann segir að kaupandinn sé grískur einstaklingur, þó að skipi hafi verið keypt af félagi eins og venjan er í skipaviðskiptum. Hann segist ekki búa yfir upplýsingum um það hvað kaupandinn ætli að gera við skipin en viti þó að hann sé í skipaútgerð. Friðrik telur líklegt að kaupandinn muni endurbyggja skipin.
Hann segir að Ægir liggi enn við Skarfabakka og að kaupandinn muni að öllum líkindum þurfa að senda dráttarbát á eftir honum. Það verði sennilega í september, enda vilji menn ekki draga skip til Grikklands yfir hávetur.
Útheimti tíma og kostnað
Margir ráku upp stór augu síðasta sumar þegar greint var frá því að Fagur hefði keypt varðskipin tvö á aðeins 51 milljón króna. Spurður út í söluverðið vildi Friðrik ekki gefa upp nákvæma tölu.
„Þetta tók tíma og það var kostnaður og vesen. Þannig að það varð enginn feitur af því,“ segir hann.