Frábær byrjun í undankeppninni hjá Íslenska liðinu en Andri Lucas Guðjohnsen kom Íslandi yfir með marki sínu undir lok fyrri hálfleiks. Stjörnumennirnir Eggert Aron Guðmundsson og Ísak Andri Sigurgeirsson unnu þá vel saman og Ísak Andri fann liðsfélaga sinn hjá Norrköping, Andra Lucas sem kláraði færið af stakri prýði.
Eftir að hafa sýnt aga og vinnusemi í varnarleik sínum og átt fín upphlaup til þess að bæta öðru markinu við fékk íslenska liðið blauta tusku í andlitið þegar Tékkar jöfnuðu metin þegar skammt var eftir af venjulegum leiktíma.
En þá var komið að þætti Andra Fannars Baldursson sem tryggði íslenska liðinu sigurinn með stórkostlegu marki í uppbótartíma leiksins. Andri Fannar klíndi boltanum upp í samskeytin og sigur Íslands staðreynd.
Næsti leikur liðsins í undankeppni EM 2025 fer fram þann 17. október næstkomandi og er sá leikur gegn landsliði Litháen.