Lífið

Munu ganga í það heilaga næsta sumar

Atli Ísleifsson skrifar
Marta Lovísa og Durek Verrett opinberuðu samband sitt árið 2019.
Marta Lovísa og Durek Verrett opinberuðu samband sitt árið 2019. Instagram

Marta Lovísa Noregsprinsessa mun ganga að eiga unnusta sinn, hinn 48 ára Durek Verrett, í ágúst á næsta ári.

Um ár er síðan parið greindi frá trúlofun sinni en í morgun tilkynntu þau að brúðkaupið muni fara fram þann 31. ágúst 2024. Athöfnin mun fara fram á Hotel Union í Geirangursfirði.

„Við erum ótrúlega ánægð með að geta fagnað ást okkar í fallegu umhverfi í Geirangri. Það skiptir okkur miklu máli að safna okkar fólki saman á stað sem er svo ríkur af sögu og stórkostlegri náttúru. Geirangur er fullkominn staður til að dásama ást okkar,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá Mörtu Lovísu og Verrett.

Norskir fjölmiðlar segja frá því að Verrett, sem kallar sig „shaman Durek“, muni samkvæmt hefð ekki bera konunglegan titil eða koma fram fyrir hönd konungsfjölskyldunnar.

Hin 51 árs gamla Marta Lovísa og hinn bandaríski Durek opinberuðu samband sitt árið 2019. Marta Lovísa var áður gift listamanninum Ari Behn, sem lést í lok árs 2019, en þau eignuðust saman þrjár dætur, þær Emma Tallulah, Leah Isadora og Maud Angelica. Marta og Behn giftust árið 2002 en skildu árið 2017.

Marta Lovísa, sem er fjórða í erfðaröð norsku krúnunnar og eina dóttir Haraldar Noregskonungs og Sonju drottningar.

Þau Marta Lovísa og Durek greindu frá trúlofun sinni sumarið 2022 og var skömmu síðar tilkynnt að hún myndi ekki lengur koma fram fyrir hönd konungsfjölskyldunnar.

Samband þeirra hefur mikið verið á milli tannanna á fólki í Noregi og víðar, ekki síst vegna starfa Durek sem töfralæknir og yfirlýsinga hans um krabbamein, kórónuveiruna og fleira.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.