Fótbolti

Mark­vörðurinn bjargaði stigi í blá­lokin og draumurinn lifir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Markinu fagnað.
Markinu fagnað. Öster

Íslendingalið Öster í sænsku B-deildinni í fótbolta náði í stig gegn Västerås SK á heimavelli í gærkvöld þegar liðin gerðu 2-2 jafntefli. Það væri ekki frásögu færandi nema fyrir þá staðreynd að markvörður Öster skoraði jöfnunarmark í 96. mínútu leiksins.

Fyrir leikinn sátu liðin í 2. og 3. sæti, Västerås með 44 stig og Öster með 39. Utsikten BK trónir hins vegar á toppnum með 46 stig en efstu tvö liðin fara upp í sænsku úrvalsdeildina á meðan 3. sætið fer í umspil við lið úr þriðja neðsta sæti í úrvalsdeildinni.

Það fór um heimamenn í Öster þegar gestirnir komust yfir eftir hálftíma leik. Ekki skánaði það þegar gestirnir tvöfölduðu forystuna snemma í síðari hálfleik. Sem betur fer fyrir Srdjan Tufegdzic – betur þekktur sem Túfa – og hans menn í Öster þá minnkaði Niklas Söderberg muninn nærri samstundis.

Í kjölfarið gerði Öster hvað það gat til að jafna. Alex Þór Hauksson og Þorri Már Þórisson komu báðir inn af bekknum. Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fékk Herman Magnusson sitt annað gula spjald í liði gestanna og heimamenn manni fleiri það sem lifði leiks.

Það nýttu þeir sér en þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fékk Öster hornspyrnu. Vladimir Rodić tók spyrnuna og markvörðurinn Miloje Preković - sem hafði skokkað yfir endilangan völlinn - stangaði boltann í netið. 

Lokatölur 2-2 og Öster heldur í vonina um að enda í öðru af tveimur efstu sætum deildarinnar. Västerås með 45 stig og Öster 40 þegar átta umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×