Fótbolti

Rúnar Kristinsson ekki áfram með KR

Siggeir Ævarsson skrifar
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í sumar
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í sumar Vísir/Pawel

KR tilkynnti nú rétt í þessu að félagið muni ekki endurnýja samningi sinn við Rúnar Kristinsson sem rennur út núna um mánaðarmótin. Rúnar hefur stýrt liði KR síðan 2017 og undir hans stjórn hefur KR unnið þrjá Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla.

KR eru sem sakir standa í 6. sæti Bestu deildar karla þegar tvær umferðir eru eftir. Rúnar hafði áður stýrt KR á árinum 2010-2014 og skilaði eins og áður sagði sex stórum titlum í hús á sínum ferli með KR. Hann mun stýra liðinu í næstu tveimur leikjum en láta svo af störfum.

Tilkynningu KR í heild má lesa hér að neðan:

„Rúnar Kristinsson, þjálfari meistaraflokks KR mun láta af störfum sem þjálfari meistaraflokks KR að loknu tímabili. Samningur Rúnars rennur út um mánaðarmót og var það ákvörðun knattspyrnudeildar að framlengja ekki samninginn við hann. Rúnar mun stýra KR liðinu í þeim tveimur leikjum sem eftir eru af tímabilinu.

Rúnar tók við meistaraflokki haustið 2017 en hann hafði áður stýrt liðinu árin 2010-2014. Á þessum tíma hefur Rúnar unnið þrjá Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla. Rúnar hefur unnið ómetanlegt starf fyrir félagið, innan vallar sem utan, og vandfundnir eru vandaðri menn.

Knattspyrnudeild KR vill fyrir hönd allra KR-inga þakka Rúnari kærlega fyrir framlag hans til félagsins og óskar honum velfarnaðar í leik og starfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×