Innlent

Segist finna til með kokkinum í Kópa­vogi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Khunying Porntip Rojanasunan, segist of reynslumikil til þess að vera miður sín eftir atvikið á Tokyo sushi í Kópavogi.
Khunying Porntip Rojanasunan, segist of reynslumikil til þess að vera miður sín eftir atvikið á Tokyo sushi í Kópavogi. Instagram

Khunying Porntip Rojanasunan, öldungar­deildar­þing­maður í Taí­landi, segist ekki ætla að lög­sækja Ara Alexander Guð­jóns­son, yfir­kokk Tokyo sushi, sem rak hana út af veitinga­stað keðjunnar á Ný­býla­vegi á föstu­dag.

Þing­maðurinn ræddi at­vikið á taí­lenska þinginu, að því er fram kemur í um­fjöllun tai­lenska miðilsins Bang­kok Post. Hún segist finna til með Ara, sem birti mynd­band af því á Face­book þegar hann rak hana af veitinga­staðnum.

Sagði Ari að þing­maðurinn hefði skaðað Taí­land með störfum sínum. Ari vildi ekki ræða málið við Vísi en áður hafa tai­lenskir miðlar sagt málið varða and­stöðu Rojanasunan við stjórn­mála­öfl sem vilji minnka á­hrif konungs­fjöl­skyldunnar í Taí­landi.

„Ég hef upp­lifað mörg svona at­vik, hatur sem byggir á því að við þekkjumst ekki. Ég finn bara til með honum,“ hefur taí­lenski miðillinn eftir þing­manninum. Hún segist ekki hafa búist við því að at­vikið myndi vekja slíka at­hygli.

Þá segir hún Ara hafa rekið sig út af staðnum líkt og hún væri dýr. Hann hafi öskrað á sig bæði á ensku og taí­lensku. Hún hafi á­kveðið að yfir­gefa staðinn þegar í stað.

„Ef ég hefði verið lengur þá hefði það getað stuðlað að of­beldi, af því að hann otaði puttanum framan í mig....eins og ég væri svín eða hundur,“ segir þing­maðurinn. Hún segist ekki vera miður sín eftir at­vikið, reynslu sinnar vegna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×