Erlent

Óttast veggjalúsafaraldur í Frakklandi

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Veggjalús er orðin mjög algeng hér á landi en hún kom fyrst hingað til lands árið 1893. Hún skríður upp í rúm til fólks á nótunni til að nærast.
Veggjalús er orðin mjög algeng hér á landi en hún kom fyrst hingað til lands árið 1893. Hún skríður upp í rúm til fólks á nótunni til að nærast. Getty Images

Frönsk stjórnvöld hafa þurft að loka sjö skólum í vikunni vegna veggjalúsar. Menntamálaráðherra Frakklands óttast að veggjalúsafaraldur sé í uppsiglingu.

Veggjalýs í fjölda stofnana og skóla

Gabriel Attal, menntamálaráðherra Frakklands, sagði í viðtali við Stöð 5, að veggjalýs hefðu fundist í allt að 17 stofnunum og að sjö skólum hefði verið lokað. Franska ríkisstjórnin boðaði til sérstaks fundar vegna þessarar óskemmtilegu blóðsugu, en nú stendur heimsmeistarakeppnin í ruðningi yfir í Frakklandi og fyrir dyrum eru Ólympíuleikarnir næsta sumar, svo Frakkar mega lítt við faraldri af þessari tegund í augnablikinu.

Attal segir að gripið verði til aðgerða hið snarasta, viðurkenndir lúsabanar hafi verið kallaðir til sem eigi að ráða niðurlögum lúsarinnar á innan við sólarhring.

Finnast á milljónum heimila

Talið er að veggjalýs finnist á 10. hverju heimili í Frakklandi og getur það kostað heimilishaldið nokkur hundruð evrur að hreinsa heimilið af óværunni.

Þá hafa veggjalýs fundist að undanförnu í neðanjarðarlestarkerfinu í París, á Charles De Gaulle flugvellinum og í frönskum hraðlestum en breska blaðið Guardian segir að 15 slíkar bruni til Lundúna á degi hverjum og að aukinnar hræðslu gæti á meðal Englendinga við að þeir flytji þessa óvelkomnu gesti inn á heimili sín.

Veggjalýs eru velþekktar á Íslandi

Veggjalúsin er Íslendingum ekki alveg ókunn. Hún fagnar í ár 130 ára afmæli landnáms á Íslandi en hennar varð fyrst vart á Framnesi við Dýrafjörð árið 1893 og getum við þakkað norskum hvalföngurum þann innflutning.

Getur fjölgað sér 500 sinnum á ævinni

Veggjalúsin nærist alfarið á blóði, helst mannablóði. Hún hefst gjarnan við í námunda við svefnstæði manna og getur á 10 mínútum sogið tífalda þyngd sína af blóði. Eftir slíka máltíð leggst hún á meltuna og verpir gjarnan eggjum en hún verpir allt að 500 eggjum á æviskeiði sínu sem er upp undir eitt og hálft ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×