Fótbolti

Var sjálfur að bíða eftir því að springa út: „Vissi að ég hafði þetta í mér“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Birnir Snær Ingason var valinn besti leikmaður deildarinnar.
Birnir Snær Ingason var valinn besti leikmaður deildarinnar. Vísir/Hulda Margrét

Stúkan valdi Birni Snæ Ingason besta leikmann Bestu-deildar karla í knattspyrnu í uppgjörsþætti sínum eftir að tímabilið kláraðist í dag. Birnir átti frábært tímabil með Víkingum þar sem hann varð Íslands- og bikarmeistari.

Birnir mætti í settið í þætti dagsins og ræddi við þá félaga í Stúkunni um nýafstaðið tímabil.

„Mér líður vel með bikarana og allt það, en það er smá hausverkur,“ sagði Birnir léttur í þættinum, en Víkingar fengu Íslandsmeistaraskjöldinn afhentann í gær, föstudag.

Birnir lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2015 fyrir Fjölni, en óhætt er að segja að tímabilið í ár hafi verið hans besta á ferlinum. Hann getur þó ekki alveg útskýrt hvað það var sem gerði það að verkum að tímabilið í ár hafi verið svona gott.

„Það er erfitt að segja hvað gerðist. En ég vissi að ég hafði þetta í mér, þetta tímabil. Ég var sjálfur búinn að bíða eftir þessu og ég fékk þetta „momentum“ í byrjun þar sem ég fór að skora og það bara fór aldrei. Ég náði alltaf að halda dampi og ef ég hugsa til baka yfir þetta tímabil þá get ég eiginlega ekki fundið einhverja nokkra leiki þar sem ég var ekki að standa mig vel. Ég var alltaf að skora eða leggja upp í eiginlega hverjum einasta leik á tímabilinu,“ sagði Birnir meðal annars, en innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Birnir Snær Ingason ræðir um tímabilið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×