„Í heildina eru þetta fjórtán skepnur sem eru dauðar, það er að segja sem við höfum fundið, en ég er handviss að við séum ekki búin að finna þær allar,“ segir Sigríður en stefnt er að því að halda leit áfram seinna í vikunni ef veður og aðstæður leyfa.
Töluvert af fé bændanna á Efra-Apavatni er nú komið í hús en Sigríður segir ekki á það hættandi að hleypa því út á meðan óljóst er hvað verður með hundana sem taldir eru hafa farið í féð. Þeir eru af næsta bæ og búið að tilkynna málið til lögreglu og Matvælastofnunar en óvíst um framhaldið.
Fyrir um það bil viku síðan komu Sigríður og aðrir að þar sem þrír hundanna voru að atast í fé og reyndust nokkrar rollur ýmist dauðar eða illa særðar. Þá var málið borið upp við eigendur hundana en svo virðist sem þeir hafi gengið lausir síðan, þar sem för sáust í snjónum í gær.
„Þetta eru greinilega ný för og ég fann skepnur dauðar á stöðum þar sem ekki voru skepnur þegar ég var að smala á sunnudag og mánudag fyrir viku,“ segir Sigríður. „Það voru skepnur út í á og búið að króa þær af á litlum syllum út í á og allar voru með samskonar áverka,“ bætir hún við.
Sigríður segir biðina eftir úrlausn erfiða en um sé að ræða bæði fjárhagslegt og tilfinningalegt tjón. Það sé ekki auðvelt að koma að skepnunum illa útleiknum. Hún segist hins vegar óendanlega þakklát öllum þeim sem lögðu lið við leitina í gær.
Það séu enn að berast skilaboð um stuðning og aðstoð.
„Þetta er algjörlega ómetanlegt og ég er ekki viss um að ég hafi náð að skila nægu þakklæti í gær frá mér og okkur,“ segir Sigríður. „Fólk tók sér frí í vinnu til að leita og aðstoða. Við höfum fundið þvílíkan stuðning frá samfélaginu og erum algjörlega orðlaus. Til allra þeirra sem hafa verið að senda skilaboð og bjóða hjálp... þetta er ómetanlegt.“