Handbolti

Hjólar í Þóri og sakar hann um móður­sýki

Aron Guðmundsson skrifar
Norski blaðamaðurinn Leif Welhaven sakar Þóri Hergeirsson, landsliðsþjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta um móðursýki
Norski blaðamaðurinn Leif Welhaven sakar Þóri Hergeirsson, landsliðsþjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta um móðursýki Vísir/Samsett mynd

Norski blaða­maðurinn Leif Wel­ha­ven er allt annað á­nægður með þá stefnu sem Þórir Her­geirs­son, lands­liðs­þjálfari norska kvenna­lands­liðsins í hand­bolta, hefur sett fyrir sitt lið í að­draganda HM í hand­bolta sem hefst í næsta mánuði.

Síðan Þórir tók við norska liðinu árið 2008 hefur hann stýrt því til sigurs á níu stórmótum. Hann er sigursælasti landsliðsþjálfari handboltasögunnar en kvennalandslið Noregs er bæði ríkjandi Evrópu- og heimsmeistari.

Þórir Hergeirsson er titlaóður þjálfari. Saga hans með norska landsliðið talar sínu máli.Vísir/Getty

Nú á dögunum var greint frá því í norskum miðlum að leik­mönnum norska kvenna­lands­liðsins í hand­bolta hefði verið meinað að veita eigin­handar­á­ritanir og taka svokallaðar sjálfsmyndir (e.selfies) með aðdáendum sínum í kringum leiki liðsins á næstunni..

Reglurnar hafa nú þegar tekið gildi og verða við lýði hið minnsta fram yfir heims­meistara­mótið í hand­bolta sem hefst í næsta mánuði í Noregi, Dan­mörku og Sví­þjóð en þar á norska landsliðið heimsmeistaratitil að verja. 

Með því að tak­marka nánd leik­manna við stuðnings­menn vilja Þórir Her­geirs­son, og aðrir sem standa að baki norska lands­liðinu, lág­marka líkurnar á því að leikmenn liðsins smitist af veirum á borð við nóró­veiruna og kórónu­veiruna.

Þórir segist, í samtali við VG, skilja að margir ungir stuðnings­menn liðsins muni sitja eftir með sárt ennið vegna þessara reglna.

„Ég veit að þessi á­kvörðun mun orka tví­mælis en þið verðið bara að fyrir­gefa mér. Ég er við stjórn­völinn. Það mun enginn finna til með mér ef leik­menn veikjast og við dettum út á HM.“

Með þessu vilji for­ráða­menn liðsins ekki sýnast glíma við móður­sýki en það er akkúrat það sem norski blaða­maðurinn Leif Wel­ha­ven sakar Þóri um í grein sem birtist á vef VG í Noregi.

„Móður­sjúkur Her­geirs­son“

Í inn­gangi greinarinnar beinir Leif orðum sínum að leik­mönnum norska kvenna­lands­liðsins sem hafa gengið í gegnum sigur­sæl ár undan­farið.

Leik­menn liðsins ættu ekki að taka stuðningnum og á­huganum á liðinu sem gefnum hlut. Bann við sjálfs­myndum með stuðnings­mönnum og eigin­handar­á­ritunum geti gert meiri skaða en gagn.

Leif rifjar upp eina sterkustu minningu sína úr æsku er hann fékk eigin­handar­á­ritun frá hetjunni sinni, Rússanum Sergej Loma­nov sem gerði garðinn frægan sem at­vinnu­maður í ban­dý.

Svona stundir gefi ungum að­dá­endum og iðk­endum oft meira en fólk almennt heldur.

„Nú hefur Þórir Her­geirs­son á­kveðið að börnin muni verða fyrir von­brigðum. Öll.“

Þórir eigi að sjálf­sögðu rétt á því að taka þessa til­teknu á­kvörðun.

„En er hún skyn­söm, nauð­syn­leg og á­hættunnar virði?“ og vitnar Leif þar í um­mæli liðslæknis norska lands­liðsins sem birtist hjá VG þar sem að hún segir hættu á sýkingu mjög litla fyrir leik­menn.

„Það má vel vera að af­leiðing þessarar á­kvörðunar leiði til þess að líkurnar á því að leik­menn smitist verði minni en hand­bolta­höllin er hvort sem er ekki öll sótt­hreinsuð í þaula og því er mögu­leikinn á því að smitast enn fyrir hendi,“ skrifar Leif í grein sinni á VG. 

Mynd: EPA

Þetta snúist því um hvort það sé virki­lega von­brigðanna virði, er varðar unga fólkið, að halda þessum reglum til streitu.

Stór hluti af því að stunda í­þróttir á hæsta gæða­stigi sé að kveikja neista, skapa gleði- og sam­veru­stundir.

„Í í­þrótt sem fyrst og fremst skín á stóra sviðinu einu sinni á ári mun heims­meistara­mót á heima­velli snúast um miklu meira en bara út­hlutun verð­launa. Þetta snýst einnig um upp­lifun. Ég er hræddur um að Her­geirs­son muni sakna þess.

Auð­vitað er mikil­vægt að vera heil­brigður en línan sem nú hefur verið dregin minnir helst á móður­sýki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×