Í frétt Reuters kemur fram að mótmælendurnir hafi hindrað nokkra gesti ráðstefnunnar frá því að komast inn á hótelið þar sem hún var haldin.
Þetta er í fjórða skiptið á árinu sem lögregla hefur haft afskipti af eða handtekið Thunberg á mótmælum. Hún var ásamt fleiri aðgerðarsinnum handtekin á mótmælum við kolanámu í Luetzerath í Þýskalandi í janúar. Í febrúar handtók lögregla hana og aðra mótmælendur í Ósló þar sem þau mótmæltu byggingu vindmylla á sögulegu svæði Sama.
Í júlí var Thunberg ákærð fyrir að óhlýðnast lögreglu þegar hún stöðvaði umferð olíuflutningabíla í Malmö mánuði áður.
Í myndskeiði má sjá Thunberg bera barmmerki sem á stóð „út með olíukennda peninga“. Í myndskeiðinu má sjá hana bíða rólega meðan lögregluþjónar halda í hana og ræða við hana. Í öðru myndskeiði sést hún inni í lögreglubifreið.
Mótmælin voru haldin fyrir utan Intercontinental hótelið í Mayfair-hverfi þar sem ráðstefna á vegum eldsneytisfyrirtækja fór fram.
„Heimurinn er að drukkna í jarðefnaeldsneyti. Fólk út um allan heim er að þjást og deyja úr afleiðingum loftslagsvárinnar sem þessi fyrirtæki hafa orsakað,“ sagði Thunberg þegar hún tók til máls á mótmælunum.