Sport

Ein af íþróttahetjum Dana lést á 101. aldursári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niels Holst-Sørensen með Ólympíueldinn.
Niels Holst-Sørensen með Ólympíueldinn. dif.dk

Danska íþróttagoðsögnin Niels Holst-Sørensen er látin, tæpum tveimur mánuðum fyrir 101 árs afmælið sitt.

Holst-Sørensen, sem fæddist 19. desember 1922, lést í gær eftir stutt veikindi.

Holst-Sørensen var ekki aðeins þekktur fyrir afrek sín á frjálsíþróttavellinum því hann var var líka lengi meðlimur í Alþjóða Ólympíunefndinni.

Holst-Sørensen varð Evrópumeistari í 400 metra hlaupi á EM í Osló 1946 en hann vann einnig silfur í 800 metra hlaupi á sama móti.

Hann náði því að verða danskur meistari í báðum greinum fimm ár samfellt frá 1943 til 1947. Alls vann hann átján danska meistaratitla í frjálsum íþróttum.

Holst-Sørensen var einnig hermaður og svo yfirhershöfðingi í danska flughernum í tólf ár frá 1970 til 1982.

Holst-Sørensen varð meðlimur í Alþjóða Ólympíunefndinni árið 1977 og gegndi þeirri stöðu til ársins 2002. Hann var síðan heiðursmeðlimur frá árinu 2002. Einn annar Dani hefur fengið þann heiður en það er Friðrik Krónprins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×