Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að landrisið bendi til aukins þrýstings sem líklegast sé tilkominn vegna kvikuinnskots á dýpi. Miðja landrissins er um 1,5 kílómetra norðvestan við Þorbjörn, nærri Bláa lóninu. Þetta er í fimmta sinn síðan árið 2020 síðan landris mælist á þessu svæði, síðast árið 2022.
„Fyrsta mat á hraða landrissins sem er í gangi núna er að það sé hraðara en áður. Að svo stöddu er ekki merki um að kvika færist nær yfirborði, aðstæður geta hins vegar breyst á skömmum tíma,“ segir í tilkynningunni.
Yfir sjö þúsund skjálftar
Síðustu aflögunargögn frá Reykjanesskaga sýna að margþætt ferli kvikuhreyfinga stendur yfir í jarðskorpunni.

Yfir 7.000 jarðskjálftar hafa mælst í jarðskjálftahrinu sem hófst 25. október norðan við Grindavík. Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýsti í kjölfarið yfir óvissustigi almannavarna. Hrinan stendur enn yfir þótt aðeins hafi dregið úr virkninni. Þrátt fyrir það eru enn líkur á að jarðskjálftar finnist á svæðinu.
Í dag verða líkanareikningar gerðir til að reyna að áætla dýpi og stærð innskotsins norðvestan við Þorbjörn. Þau gögn ættu að gefa aukna innsýn í kvikuhreyfingar og aflögun á Reykjanesskaga.