Handbolti

„Gaman að hitta þá loksins“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Snorra Stein hefur hlakkað mikið til að komast aftur á parketið.
Snorra Stein hefur hlakkað mikið til að komast aftur á parketið. Vísir/Sigurjón

Snorri Steinn Guðjónsson fékk í dag loks að halda æfingu hjá A-landsliði karla í handbolta eftir að hafa tekið við þjálfarastarfinu 1. júní síðastliðinn. Hann er spenntur fyrir framhaldinu.

„Það er gaman að hitta þá loksins. Ég er spenntur að upplifa þá á æfingu. Þetta er náttúrulega tvennt ólíkt að horfa á menn með félagsliðum sínum en nú fæ ég að upplifa þá loksins, fá tilfinningu fyrir þeim og liðinu og prófa mig aðeins áfram með það,“

„Það þarf að nýta tímann vel. Það er gömul saga og ný að við erum ekki að drukkna í æfingum og þetta snýst heldur kannski ekki um það að hrúga inn eins mörgum æfingum og hægt er. Það þarf að nýta tímann vel, vera effektívir og hafa gæði á æfingunum,“ segir Snorri Steinn um vikuna sem er fram undan.

Klippa: Gaman að hitta þá loksins

Veit hann nær ekki öllu inn

Stærstur hluti íslenska hópsins var saman kominn á æfingu í Víkinni í dag en einhverjir áttu leik í gær og verða aðeins seinni til landsins. Ísland æfir næstu daga en á svo tvo æfingaleiki við Færeyjar á föstudag og laugardag.

En hvers vill Snorri Steinn vera vísari að þessari viku lokinni?

„Bara allt. Við erum að drilla alla þessa hluti. Sókn, vörn og hraðaupphlaup. Það eru uppstillingar sem mig langar að prófa, sjá menn í mismunandi stöðum. Haukur hefur ekki verið lengi í liðinu til dæmis. Það er eitt og annað aðeins nýtt sóknarlega, ný kerfi og bara fullt af hlutum sem mig langar að prófa,“

„Við erum samt strax búnir að taka ákvörðun um það að við náum ekki öllu inn. Eitthvað verður bara að bíða þangað til í desember eða janúar. Þeir hlutir sem ég vil hafa klára 12. janúar, ég næ þeim ekkert öllum núna. Eitthvað gengur vel og annað þarf að bíða. Það verður að koma í ljós hvernig mér líður með þetta eftir leikinn á laugardaginn,“ segir Snorri Steinn.

Þarf ekki að umturna öllu

Mikilvægir dagar eru fram undan enda er þetta eina skiptið sem Snorri Steinn nær hópnum saman til æfinga, allt þar til liðið kemur saman í lok desember fyrir EM í Þýskalandi sem hefst um miðjan janúar. Líkt og Snorri nefndi að ofan þarf að nýta tímann vel en að sama skapi þarf að velja og hafna hvað á að leggja áherslu á þegar tíminn með liðinu er svo skammur.

„Það hefur alltaf verið þannig og er líka þannig hjá hinum liðunum. Ég er nýr með liðið en ég er ekkert að fara að umturna leik liðsins. Ég tek við góðu liði með góðan grunn og þarf ekkert að fara að þruma öllu í burtu og breyta öllu þó svo að ég vilji hafa mitt handbragð á þessu. Þetta eru góðir gaurar sem eru góðir í handbolta og ég held að þeir séu mjög mótttækilegir fyrir nýjungum og verði fljótir að aðlagast,“

Viggó eini sem er tæpur

Allir leikmenn eru þá heilir heilsu nema Viggó Kristjánsson sem glímir við meiðsli á fingri og er tæpur fyrir verkefni vikunnar.

„Ég held að ástandið sé mjög gott. Ég lagði áherslu á það að þeir væru mjög heiðarlegir og opnir með það ef það væri eitthvað. Eini sem hefur eitthvað heyrt í mér í Viggó og hann er tæpur þessa vikuna. Aðrir eru 100 prósent klárir og ættu að geta verið með að fullu allan tímann,“ segir Snorri Steinn.

Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×