Innlent

Vel undir­búin fari að gjósa

Bjarki Sigurðsson skrifar
Helga Árnadóttir er framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu.
Helga Árnadóttir er framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu. Vísir/Arnar

Sérfræðingar Veðurstofunnar telja ekki útilokað að kvika nái að brjóta sér leið upp í jarðskorpuna norðvestur af Þorbirni skammt frá Bláa lóninu. Framkvæmdastjóri lónsins segir starfsmenn þess reiðubúna ef það fer að gjósa. Jarðskjálftahrina á svæðinu í dag þykir skýrt merki um kvikuhlaup.

Síðastliðinn sólarhring hafa um ellefu hundruð skjálftar mælst á Reykjanesskaganum. Fimm mældust yfir þrír að stærð, sá stærsti þrír komma sjö en sá varð einungis rúma þrjá kílómetra frá Grindavík. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Veðurstofunni eru engar vísbendingar um gosóróa en þó eru skýr merki um kvikuhlaup. Hægt hefur á landrisinu við Svartsengi sem hófst fyrir fjórum dögum síðan.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu segir starfsmenn vera vel undirbúna komi til eldgoss.

„Eins og staðan er þá er óvissustig sem þýðir að við erum að yfirfara alla okkar ferla og gera okkur tilbúin til þess að geta brugðist við ef eitthvað myndi gerast en eins og staðan er núna er þetta óvissustig og almannavarnir hafa ekki hækkað það,“ segir Helga. 

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að ekki sé hægt að útiloka það að kvika nái að brjóta sér leið upp við Bláa lónið þrátt fyrir að engin skýr merki séu um að það sé að fara að gerast þar eða annars staðar. Helga segir ferðamenn sem mæta í lónið vera upplýsta um stöðuna á staðnum.

„Þeir hafa fundið fyrir þeim og spurt og verið að mörgu leyti forvitnir. Það hefur engin hræðsla gripið um sig eða neitt slíkt heldur meira forvitni og við reynt að upplýsa þá eins og unnt er. Við upplýsum gestina þegar þeir koma eftir bestu getu og reynum að fræða þá á sama tíma. Þeir taka þessari fræðslu vel og finnst þetta áhugavert, miklu frekar en hitt,“ segir Helga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×