Handbolti

Markahæsti línu­maðurinn í Þýska­landi: „Hef mjög gaman af því að skora“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson hefur leikið 35 landsleiki.
Elliði Snær Viðarsson hefur leikið 35 landsleiki. vísir/sigurjón

Elliði Snær Viðarsson, landsliðsmaður í handbolta, er spenntur fyrir leikjunum gegn Færeyjum sem eru þeir fyrstu undir stjórn nýs þjálfara, Snorra Steins Guðjónssonar. Eyjamaðurinn kveðst ánægður með frammistöðu sína í Þýskalandi í vetur.

„Maður veit svo sem ekki alveg við hverju maður á von á. Ég horfði á U-21 árs landsliðið hjá Færeyjum í sumar. Þetta verður væntanlega mjög svipað. Við erum mjög spenntir, gaman að vera komnir saman aftur og gaman að sjá hvernig nýju þjálfararnir koma inn í þetta,“ sagði Elliði í samtali við Vísi fyrir landsliðsæfingu í Víkinni.

Nýjum þjálfara fylgja nýjar áherslur og það kemur í ljós í leikjunum gegn Færeyjum hverjar þær eru. 

„Þetta verður mitt á milli þess hvernig Valur spilaði og hvernig við vorum að spila, kannski aðeins hraðara og aðeins öðruvísi varnarafbrigði. En við eigum eftir að sjá hvernig vikan verður,“ sagði Elliði.

„Þetta er gríðarlega mikilvæg vika og hún koma okkur vel. Við verðum að gefa allt í þetta og fá tvo góða leiki gegn Færeyjum. Það er gott að fá tvo heimaleiki og fá fólkið í Höllinni. Við hlökkum til að spila þar aftur,“ sagði Elliði.

Eyjamaðurinn er á sínu þriðja tímabili með Gummersbach í Þýskalandi. Hann hefur leikið vel í þýsku úrvalsdeildinni og er markahæsti línumaður hennar með 48 mörk í ellefu leikjum.

„Mér hefur gengið ágætlega. Ég hef fengið helling af færum en nýtingin gæti verið betri. Það er alltaf gaman að fá boltann og ég hef mjög gaman af því að skora,“ sagði Elliði sem er með 72,7 prósent skotnýtingu í vetur.

„Við byrjuðum svolítið brösuglega og töpuðum stigum sem við hefðum ekki viljað tapa. En við höfum unnið eitthvað af þeim til baka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×