Fótbolti

Urðu meistarar með Harvard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir er hér lengst til hægri og Írena Héðinsdóttir Gonzalez er lengst til vinstri á þessari mynd með liðsfélögum sínum úr meistaraliðinu.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir er hér lengst til hægri og Írena Héðinsdóttir Gonzalez er lengst til vinstri á þessari mynd með liðsfélögum sínum úr meistaraliðinu. @harvardwsoccer

Íslensku knattspyrnukonurnar Ólöf Sigríður Kristinsdóttir og Írena Héðinsdóttir Gonzalez urðu í gær meistarar í Ivy League í bandaríska háskólafótboltanum.

Þær eru á sínu fyrsta ári með Harvard háskólanum og voru báðar í byrjunarliðinu í 3-0 sigri á Columbia í úrslitaleiknum.

Ólöf Sigríður spilaði með Þrótti í Bestu deildinni í sumar en Írena með Breiðabliki.

Hildur Þóra Hákonardóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, báðar úr Breiðabliki, eru líka leikmenn liðsins en þær eru báðar frá vegna meiðsla. Fengu höfuðhögg sem þær eru að jafna sig á.

Josefine Hasbo var hetja liðsins því hún skoraði öll þrjú mörkin í leiknum. Ólöf komst einu sinni nálægt því að skora.

Þetta var sögulegur sigur því þetta er í fyrsta sinn sem Ivy deildin er með úrslitakeppni um Ivy titilinn. Með þessum sigri þá tryggði Harvard sér einnig sæti í úrslitakeppninni um bandaríska háskólameistaratitilinn.

Þær Ólöf og Írena eiga því vonandi nóg eftir af tímabilinu.

Ólöf skoraði sjö deildarmörk fyrir Harvard á leiktíðinni og var valin besti nýliðinn í Ivy deildinni. Írena, sem spilar aftarlega á miðjunni, náði ekki að skora en byrjaði ellefu af sautján deildarleikjum.

Ivy League háskólar eru með bestu háskólum Bandaríkjanna en þeir eru líka með elstu háskólum í Bandaríkjunum. Harvard-háskóli er sá elsti en hann var stofnaður 1636. Skólarnir eru allir einkareknir og eru með auðugustu menntastofnunum heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×