Fótbolti

Mætast í úr­slita­leik um titilinn í loka­leik beggja á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe og Ali Krieger sjást hér saman með Ashlyn Harris þegar bandaríska landsliðið varð heimsmeistari 2019.
Megan Rapinoe og Ali Krieger sjást hér saman með Ashlyn Harris þegar bandaríska landsliðið varð heimsmeistari 2019. Getty/Brad Smith

Bandarísku knattspyrnukonurnar Megan Rapinoe og Ali Krieger gætu báðar upplifað hinn fullkomna endi á farsælum fótboltaferli sínum.

Lið þeirra, OL Reign og Gotham FC, spila nefnilega til úrslita um bandaríska meistaratitilinn í ár. Báðar höfðu gefið það út að þetta yrði þeirra síðasta tímabil á ferlinum.

OL Reign sló út San Diego Wave í undanúrslitunum með 1-0 sigri en NJ/NY Gotham FC hafði betur 1-0 á móti Portland Thorns í framlengdum undanúrslitaleik.

Rapinoe er 38 ára gömul og hefur spilað með OL Reign frá árinu 2013. Hún hefur samt aldrei náð að vinna meistaratitilinn með félaginu þrátt fyrir að vinna deildina þrisvar á þessum tíma. Rapinoe varð síðast landsmeistari þegar hún lék með Lyon í Frakklandi 2012-13 tímabilið.

Krieger er 39 ára gömul og er á sínu öðru tímabili með NJ/NY Gotham FC. Hún lék áður með Orlando Pride. Krieger hefur aldrei orðið bandarískur meistari en hún varð síðast landsmeistari með þýska félaginu FFC Frankfurt árið 2008.

Rapinoe og Krieger hafa verið lengi í bandaríska landsliðinu og urðu heimsmeistarar saman bæði 2015 og 2019. Krieger er varnarmaður sem á að baki 108 landsleiki en Rapinoe hefur skorað 63 mörk í 203 landsleikjum fyrir Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×