Eiður Ben kemur inn í þjálfarateymi Breiðabliks sem tekur smá breytingum þar sem Óskar Hrafn Þorvaldsson er farinn til Haugasunds í Noregi. Halldór, sem var aðstoðarþjálfari Óskars Hrafns, er orðinn aðalþjálfari og Eyjólfur, sem var meistaraflokksteyminu innan handar en þó með áherslu á yngri leikmenn félagsins, kemur inn sem aðstoðarþjálfari.
Eiður Ben starfaði lengi vel með Pétri Péturssyni hjá Val þar sem þeir unnu fjölda titla með kvennalið félagsins. Hann tók við Þrótti Vogum á síðasta ári en stoppaði stutt í Vogunum og fór til KA síðar sama ár.
Þar hefur hann starfað síðan, sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks og þjálfari yngri flokka. Nú mun hann sinna sama starfi hjá Breiðabliki.
Breiðablik er sem stendur að klára riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu áður en liðið heldur í verðskuldað frí eftir langt tímabil. Liðið endaði í 4. sæti Bestu deildar karla á síðustu leiktíð.
Fréttin hefur verið uppfærð.