Fótbolti

Mar­tröð í loka­leik ferilsins hjá Rapin­oe

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ali Krieger sem hér sést fyrir miðju vann bandaríska meistaratitilinn í sínum síðasta leik.
Ali Krieger sem hér sést fyrir miðju vann bandaríska meistaratitilinn í sínum síðasta leik. Vísir/Getty

Gotham FC tryggði sér í nótt sigurinn í bandarísku kvennadeildinni í knattspyrnu eftir sigur á OL Reign í úrslitaleik. Megan Rapinoe lék þar sinn síðasta leik á ferlinum.

Það var eftirvænting fyrir úrslitaleik OL Reign og Gotham FC og ekki síst fyrir þær sakir að tvær stórstjörnur höfðu tilkynnt fyrir leik að hann yrði þeirra síðasti á ferlinum. Þær Ali Krieger og Megan Rapinoe hafa báðar leikið stór hlutverk í bandaríska kvennalandsliðinu síðustu árin en hafa ákveðið að láta gott heita.

Leikurinn var aðeins fimm mínútna gamall þegar honum var lokið hjá Rapinoe. Hún meiddist eftir návígi og varð að yfirgefa völlinn. Ansi bitur endir á ferli þessarar frábæru knattspyrnukonu.

Á 25. mínútu kom hins vegar fyrsta markið. Það gerði Lynn Williams fyrir Gotham FC með skoti úr vítateignum. Aðeins fjórum mínútum síðar var Rose Lavelle hins vegar búin að jafna metin fyrir OL Reign.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks náði Gotham FC forystunni á ný með skallamarki frá Esther Gonzalez.

Í síðari hálfleik reyndu leikmenn OL Reign hvað þeir gátu til að jafna metin. Amanda Haught fékk rautt spjald í uppbótartíma en einum færri tókst liði Gotham FC að sigla sigrinum í höfn og tryggja sér titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×