„Við fengum að fara inn um eittleytið hjá Höfnunum og vorum í raun komin út um tvö. Þetta var mjög fljótt afgreitt,“ sagði Sigrún um aðgerðina.
„Við sóttum okkar kindur, 35 stykki, og svo fórum við hjá nágranna okkar og sóttum tíu stykki og svo sóttum við hænurnar okkar, 20 stykki. Og náðum í einn kött hjá frænda okkar sem býr fyrir aftan okkar. Þannig við náðum að bjarga helling af dýrum,“ sagði hún. Hér má sjá myndband af dýrunum.
Hvernig ferjar maður svona mikið af kindum?
„Við vorum með eina hestakerru en ég setti inn færslu í gærkvöldi á Facebook-hópinn Aðstoð við Grindvíkinga og óskaði eftir hestakerru ef einhver ætti ef okkur yrði hleypt inn. Það voru svo ótrúlega margir sem buðu fram hjálp sem er alveg magnað,“ sagði Sigrún.
Færslan skilaði tilætluðum árangri af því þeim barst hjálp.
Dýrin komin á öruggan stað
Þökk sé aðstoð tveggja manna var hægt að ferja öll dýrin í einu og eru þau komin í öruggt skjól.
„Það mættu svo tveir menn til okkar á stórum bílum með hestakerrur. Þannig þetta gekk ótrúlega vel fyrir sig að klára þetta,“ bætti hún við.
Komu þeir með ykkur inn í bæinn?
„Já, þeir komu inn fyrir líka þannig við mættum á þremur bílum með þrjár hestakerrur og tókum öll okkar dýr,“ sagði Sigrún.

Voru þetta utanbæjarmenn eða Grindvíkingar?
„Þetta voru menn úr Keflavík og svo þegar við vorum að koma með kindurnar til Keflavíkur voru allir bara Við getum geymt þær. Það er alveg magnað hvað það er mikill kærleikur sem kemur fram og sést skýrt þegar eitthvað kemur upp á,“ sagði Sigrún
Hvert fóruð þið svo með dýrin?
„Þær eru í hesthúsunum í Keflavík og hænurnar fóru í Garðinn til konu þar. Þannig þau eru á víð og dreif í nágrenninu,“ sagði Sigrún.
Vonar að fólk fái að ná í dýr sín
Fjárhús fjölskyldunnar eru ansi einangruð, alveg niðri við fjöru svo Sigrún sagðist ekki hafa séð neina aðra sækja dýrin sín. Hún vissi þó af öðrum sem hefðu náð að sækja dýrin sín.
„En við sáum fullt af lausum kindum á leiðinni sem voru örugglega frá Stað. En Þær voru allavega úti þannig þær ættu að geta flúið ef eitthvað gerist,“ sagði hún.
Og eruð þið í borginni eða einhvers staðar nær Grindavík?
„Ég er úr Grindavík en bý í Kópavogi þannig það er eiginlega öll fjölskyldan hjá mér. Það er voða kósý. Það er ekkert mikið pláss en maður býr til pláss,“ sagði hún.
„Ég vona bara innilega að þeir hleypi fólki inn. Ég veit að Dýrfinna er búin að vera að bíða eftir að komast inn að ná í ketti og voru með gott plan, komin með bíla og fólk. Það er fullt af köttum á svæðinu. Fólk er eiginlega lamað yfir því að geta ekki náð í dýrin sín sem er ömurlegt,“ sagði hún að lokum.