Það var maður við mann í reiðhöllinni í Kjarri þar sem um 300 manns komu og fögnuðu afmæli Stála á laugardagskvöldið. Hann kom meira að segja sjálfur í gleðina inn í reiðhöll þar sem skálað var fyrir honum og afmælissöngurinn sungin honum til heiðurs.
Ræktendur og eigendur Stála eru þau Helgi Eggertsson og Helga Ragna Pálsdóttir í Kjarri. Stáli þótti frekar ófríður og ekki mikið í hann spunnið þegar hann var að vaxa úr grasi fyrstu árin sín.
„Svo var hann taminn þegar hann var á fjórða vetur og þá kom í ljós að hann gæti verið eitthvað meira en venjulegt hross. Fimm vetra var hann sýndur við þokkanlegan dóm og svo var hann sýndur aftur 8 vetra og fór þá í sinn hæsta dóm og þá fór hann að fá hylli merareigenda og hefur verið afskaplega vinsæll. Mér finnst hann farsæll stóðhestur síðan, frjósamur og gefið mikið af ágætum hrossum,” segir Helgi.
Stáli á tæplega 900 afkvæmi sem segir allt um vinsældir hans.
En þekkir hann öll afkvæmi sín?
„Nei, ég held að það sé nú ekki. Hann þekkir ekki einu sinni allar mæður „barnanna” sinna því hann var notaður í sæðingar í nokkuð mörg ár,” segir Helgi hlæjandi.
Daníel Jónsson var heiðraður sérstaklega í afmælinu en hann og Stáli náðu ótrúlegum góðum árangri á mótum á sínum tíma en árið 2006 varð Stáli til dæmis heimsmeistari í kynbótadómi á landsmóti á Vindheimamelum og þeir urðu líka landsmótsmeistarar í sjö vetra flokki stóðhesta á mótinu.
„Ég held að þetta sé glaðasti hestur, sem ég hef setið á um dagana. Hann hafði einstaklega gaman af öllu, sem var verið að gera. Léttviljugur og dansandi fjörugur og jákvæður,” segir Daníel.