Fótbolti

Gagn­rýnir guðsummæli Rapinoe og segir hana vera narsissista

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Megan Rapinoe hefur leikið sinn síðasta leik á fótboltaferlinum.
Megan Rapinoe hefur leikið sinn síðasta leik á fótboltaferlinum. getty/Katharine Lotze

Bandarísk sjónvarpskona hefur gagnrýnt ummæli Megans Rapinoe eftir lokaleik hennar á fótboltaferlinum og segir þau sýna hversu óhemju sjálfhverf hún sé.

Rapinoe sleit hásin eftir aðeins sex mínútur í úrslitaleik OL Reign og Gotham FC um bandaríska meistaratitilinn um helgina. Án Rapinoes tapaði OL Reign leiknum og varð af meistaratitlinum. 

Á blaðamannafundi eftir leikinn fór Rapinoe mikinn og sagði meiðsli sín til marks um að guð sé ekki til.

„Ég á þetta ekki skilið. Ég get alla vega sagt það. Ég er ekki trúuð manneskja eða þannig en ef það væri til guð þá sannar þetta það að guð er ekki til,“ sagði Rapinoe.

Ummæli Rapinoes mæltust misvel fyrir. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt þau er sjónvarpskonan Sage Steele.

„Narsissismi af bestu gerð,“ skrifaði Steele við myndband af ummælum Rapinoe. Steele er strangtrúuð og það er því ekki að furða að ummæli Rapinoes hafi ekki vakið mikla lukku hjá henni.

Rapinoe átti glæstan feril. Hún lék meðal annars 203 landsleiki fyrir Bandaríkin og varð heimsmeistari með þeim í tvígang og einu sinni Ólympíumeistari. Síðustu tíu ár ferilsins lék Rapinoe með OL Reign.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×