Skoðun

Lífs­fylling í stað land­fyllingar í Þor­láks­höfn

Guðrún Magnúsdóttir skrifar

Í maí síðastliðnum handsalaði staðgengill bæjarstjóra í Ölfusi samkomulag við Embættilandlæknis um að Þorlákshöfn yrði nú formlega heilsueflandi samfélag. Það felur í sér að styðja samfélög í að skapa umhverfi sem stuðlar að aukinni heilsu og vellíðan íbúa og að ákvarðanir sveitarfélags séu teknar með þau markmið að leiðarljósi. Samkomulagið um að heilsusamlegir lifnaðarhættir íbúa séu hafðir að leiðarljósi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum virðist þó eingöngu hafa verið gert til málamynda því nú stendur til að moka yfir öldu í bænum til þess að greiða leið fyrir námuvinnslu. Sú ákvörðun gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu sveitarfélagsins um að bæta lýðheilsu íbúanna. Raunar er ákvörðunin jafn nútímaleg og sniðug og að opna Marlboro-verksmiðju á Suðurlandi, koma íbúunum í nærliggjandi hverfum inn og loka gluggunum um ókomna tíð. Fyrirhuguð landfylling er þannig talin hafa mjög neikvæð áhrif á líkamlega heilsu íbúa í nærumhverfi með mengandi hætti. Loftmengun er skilgreind sem eitt alvarlegasta umhverfisvandamál í nútímasamfélögum samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO).

Landfyllingin setur líkamlega heilsu íbúa í hættu þar sem efnin sem finnast í slíkum námum hafa beinlínis skaðleg áhrif á öndunarfæri og hjarta- og æðakerfi fólks sem býr og starfar í kring. Þá eru ótalin áhrif svifryks við slíka námuvinnslu, en svifryk hefur margvísleg og neikvæð áhrif á heilsu fólks. Það er einnig talið áhættuþáttur fyrir skertum lungnaþroska barna. Foreldrar ungra barna hafa í þessu samhengi verið hvattir til að forðast það að setja ung börn sín út í vagn þegar svifryk er mikið í umhverfi þess. Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum. Við vitum of mikið til þess að leyfa skammtímasjónarmiðum að ráða för í mikilvægum ákvörðunum sem hafa áhrif á líf fólks. Stækkun vikurnámunnar í Þorlákshöfn samræmist sannarlega ekki stefnu sveitarfélagsins um heilsueflandi bæjarfélag, en enn fremur er ákvörðunin einfaldlega ekki tekin með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Námuvinnsla á ekki heima innan bæjarmarka Þorlákshafnar eða annarra bæjarfélaga þar sem fólk er fyrir. Aldan sem nú stendur til að moka yfir hefur veitt fólki andlega, líkamlega og félagslega vellíðan hingað til og mun halda því áfram fái hún að vera í friði.

Höfundur er lýðheilsufræðingur.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×