Erlent

Musk kallar verk­falls­að­gerðir í Sví­þjóð „geð­veiki“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Musk er stofnandi Tesla og SpaceX og eigandi X/Twitter.
Musk er stofnandi Tesla og SpaceX og eigandi X/Twitter. Getty/Christian Marquardt

„Þetta er geðveiki,“ segir Elon Musk, stofnandi Tesla, á X/Twitter um verkfallsaðgerðir sem standa yfir í Svíþjóð og beinast gegn starfsstöðvum fyrirtækisins þar í landi.

Starfsmenn Tesla berjast nú fyrir því að fá að ganga saman til samninga við fyrirtækið um kaup og kjör en baráttan er einnig sögð snúast um framtíð „sænska módelsins“, það er að segja það fyrirkomulag sem viðhaft er á Norðurlöndunum um að menn séu í verkalýðsfélögum og gangi saman til samninga.

Bandarísk fyrirtæki eru sögð hafa grafið undan fyrirkomulaginu á síðustu árum og slitu forsvarsmenn Spotify í Svíþjóð til að mynda viðræðum á dögunum sem snérust um rétt starfsmanna til sameiginlegan samning.

Það er verkalýðsfélagið IF Metall sem fer fyrir verkfallsaðgerðunum fyrir starfsmenn Tesla en aðgerðirnar hafa smitað út frá sér og haft þær afleiðingar að fjöldi annarra stétta hefur látið af þjónustu við fyrirtækið.

Póstburðarmenn hafa til að mynda neitað að koma nýjum bílnúmerum til skila og þá hafa hafnarstarfsmenn neitað að flytja Tesla-bifreiða um borð eða frá borði til flutnings. Rafvirkjar hafa neitað að þjónusta bifreiðarnar og sama má segja um bílamálara.

Ummæli Musk voru viðbrögð við fregnum af þessum samstöðuaðgerðum en sérfræðingar telja Tesla þó munu neyðast til að láta undan að lokum. „Ég veðja á að Tesla verði ekki áfram í Svíþjóð án sameiginlegra samninga. Verkalýðsfélagið mun sigra. Ég á erfitt með að sjá það fyrir mér að verkalýðsfélögin láti undan. Þetta er of stórt mál,“ segir Jesper Hamark, sérfræðingur í efnahagssögu við Háskólann í Gautaborg.

Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×