Sport

Os­car Pistorius gæti verið sleppt úr fangelsi í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oscar Pistorius keppir á gervifótum frá Össur.
Oscar Pistorius keppir á gervifótum frá Össur. Getty/Chris McGrath

Oscar Pistorius, fyrrum frjálsíþróttastjarna Suður-Afríkumanna, sækist eftir því í dag að fá reynslulausn eftir sjö ár í fangelsi.

Pistorius var dæmdur fyrir morð á kærustu sinni Reevu Steenkamp. Hann skaut hana til bana í gegnum hurð á baðherbergi þeirra á Valentínusardegi árið 2013.

Þetta verður í annað skiptið sem Pistorius kemur fyrir skilorðsnefndina á árinu en í mars var máli hans vísað frá af því að nefndin taldi að hann hefði ekki lokið nægilega stórum hluta af dómnum.

Þá var málinu hins vegar ranglega vísað frá þar sem var í raun búinn að sitja af sér helminginn af dómnum. Hann átti því rétt á því að koma fyrir skilorðsnefndina og sækjast eftir reynslulausn.

Pistorius var þjóðhetja eftir afrek sín í frjálsum íþróttum fatlaðra og vakti líka heimsathygli fyrir að keppa við heilbrigða á stórmótum eins og Ólympíuleikum. Hann missti báða fætur ellefu mánaða gamall. Pistorius vann alls sex gullverðlaun á Ólympíumótum fatlaðra frá 2004 til 2012.

Pistorius fékk fyrst fimm ára dóm en hæstiréttur lengdi seinna dóminn í þrettán ár og fimm mánuði.

Talsmaður fangelsisyfirvalda í Suður Afríku staðfesti að Pistorius komi fyrir skilorðsnefndina í dag en þetta mun gerast í Atteridgeville fangelsinu. Hann gæti því sloppið úr fangelsinu.

Margt er skoðað þegar menn koma fyrir nefndina eins og alvarleiki brotsins, framkomu fangans í fangelsinu, sálarástand hans og annað.

Steenkamp var 29 ára gömul þegar Pistorius myrti hana. Hann skaut hana í gegnum baðherbergisdyr á heimili þeirra í Pretoria en hélt því fram að hann hafi haldið að innbrotsþjófur væri á ferðinni. Rétturinn trúði því ekki og dæmdi hann fyrir manndráp af gáleysi. Seinna var því breytt í manndráp en hann var aldrei dæmdur fyrir manndráp af yfirlögðu ráði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×