Handbolti

Bitist um tón­listina: „Hún byrjaði að spila kántrí!“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sandra skildi ekkert í því þegar Andrea vildi hita upp fyrir leik með kántrítónlist.
Sandra skildi ekkert í því þegar Andrea vildi hita upp fyrir leik með kántrítónlist. Vísir/Valur Páll

Skiptar skoðanir eru um tónlist innan íslenska landsliðsins sem hefur keppni á HM á fimmtudaginn kemur. Herbergisfélagarnir Sandra Erlingsdóttir og Andrea Jacobsen segja hvora aðra vera með versta tónlistarsmekkinn í liðinu.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Stafangri

Vísir hitti á þrjár landsliðskonur í Stafangri í gær og vildi vita hvaða leikmaður í hópnum væri með versta tónlistarsmekkinn. Það stóð ekki á svörum.

„Ég ætla að segja herbergisfélagi minn, Sandra Erlingsdóttir.“ sagði Andrea Jacobsen, staðföst.

„Við erum svo rosalega ólíkar með þetta og við skiptumst á að vera með leikdagslistann í gangi. Hennar er bara allt öðruvísi en minn.“ bætti Andrea við.

Klippa: Misjafn tónlistarsmekkur

Sandra var sömuleiðis á því að herbergisfélagi sinn, Andrea, væri með versta tónlistarsmekkinn í liðinu.

„Andrea Jacobsen. Við erum saman í herbergi og hún byrjaði að spila kántrí fyrir leik. Það var ekki alveg minn tebolli.“ segir Sandra. Aðspurð hvort Andrea sé djúp í kántrítónlistinni segir hún:

„Já, fyrir leiki. Mjög skrýtið.“

Perla Ruth Albertsdóttir sagðist ekki þekkja nægilega vel til versta tónlistarsmekksins þar sem útvalinn leikmaður sér um tónlistina á leikdag.

„Það eru of fáar sem fá að láta ljós sitt skína þar. Við erum bara með DJ í liðinu og svo stýri ég tónlistinni á mínu herbergi. Ég ætla ekki að taka neinn af lífi þar núna. Ég er ekki alveg með það á hreinu,“ segir Perla Ruth.

Vísir fylgir landsliðinu eftir í kringum leiki þess á HM sem hefst gegn Slóveníu í Stafangri á fimmtudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×