Fótbolti

Full­yrða að Benóný Breki sé á leið út til að skrifa undir hjá Gauta­borg

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Benóný Breki Andrésson (t.h.) er að öllum líkindum á leið til Gautaborgar.
Benóný Breki Andrésson (t.h.) er að öllum líkindum á leið til Gautaborgar. Vísir/Hulda Margrét

Benóný Breki Andrésson, sóknarmaður KR, er á leið út til Svíþjóðar þar sem hann mun skrifa undir hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Gautaborg.

Þetta herma heimildir Vísis, en einnig er þetta fullyrt á Fótbolta.net. Þar kemur fram að fyrst hafi verið fjallað um áhuga Gautaborgar á Benóný í byrjun síðasta mánaðar.

Benóný Breki, sem er aðeins 18 ára gamall, gekk í raðir KR fyrir tímabilið í sumar frá ítalska félaginu Bologna þar sem hann hafði leikið með ungilngaliðum félagsins. Hann skoraði níu mörk í Bestu-deildinni í sumar og vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína.

Þessi 18 ára gamli sóknarmaður lék með yngri flokkum Breiðabliks og hefur einnig heillað með frammistöðu sinni með U19 ára landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins.

Eins og áður segir þykir nú afar líklegt að Benóný verði kynntur til leiks sem nýr leikmaður Gautaborgar á næstu dögum, en þeir Adam Ingi Benediktsson og Kolbeinn Þórðarson leika nú þegar með liðinu sem hafnaði í 13. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á nýafstöðnu tímabili. Hvorki Bjarni Guðjónsson, framkvæmdarstjóri KR, né Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, vildu þó staðfesta sögusagnirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×